Útsvar: Frumraun nýs liðsmanns Fljótsdalshéraðs í kvöld
Lið sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, sem náð hefur frábærum árangri í
spurningakeppninni Útsvari seinustu tvö ár, mætir Akranesi í kvöld.
Hrafnkell Lárusson, héraðsskjalavörður, hefur tekið sæti Stefáns Boga
Sveinssonar í liðinu.
Hrafnkell er uppalinn Breiðdælingur og keppti með Stefáni Boga í Gettu betur liði Menntaskólans á Egilsstöðum undir lok seinasta áratugar. Á Facebook síðu sinni í gær segist hann hlakka til að mæta Skagamönnum.
„Finnst dálítið spes að þreyta frumraunina gegn Akranesi þar sem ég er hálfur Skagamaður, fæddur á Akranesi og á ömmu og afa þar.“
Kennarinn Ingunn Snædal og sauðfjárbóndinn Þorsteinn Bergsson eru áfram í liðinu. Keppnin hefst klukkan 20:15 og verður í beinni útsendingu á Ríkissjónvarpinu.
Lið Fjarðabyggðar mætir til leiks eftir viku. Þar standa yfir æfingabúðir um helgina.