Tungumenn blótuðu á Þorraþræl
Íbúar í Hróarstungu á Hérði heldu þorrablót sitt á Þorraþræl, sem er síðasti dagur þorra. Blótið var haldið í Tugubúð sem er félagsheimili sveitarinnar.Blótið var með hefðbundnu sniði, Gestur Hallgrímsson á Blöndubakka formaður þorrablótsnefndar bauð folk velkomið og setti blótið formlega, hann skipaði síðan Gunnar Guttormsson á Litla-Bakka sem veislustjóra. Fórst Gunnari það ábyrgðarmikla starf með miklum ágætum. Það voru Bakkabæirnir sem voru í þorrablótsnefnd í þetta skiptið en nefndarsetan færist milli svæða í sveitinni milli ára.
Dagskráin var mikil að burðum um þriggja klukkutíma löng, byggð upp með annál sem inn í var skotið ýmsum artiðum, sungnum, lesnum og með stuttum leiknum atriðum. Þar var farið yfir í spéspegli atvik og atferli sveitunganna frá síðasta þorrablóti. Tekin út búskapurinn á bæjum og helstu afrek húsbænda, husfreyja og hjúa tíunduð, nokkuð nákvæmlega í allavega sumum málum.
Áberandi var hvað ungt fólk kom mikið að skemmtidagskránni, ungt fólk sem stóð sig með afbrigðum vel, undir styrkri stjórn öldungsins og skyttunar á Litla-Bakka, sem fyllti 8 tuginn á síðasta ári en lætur hvergi á sjá. Góður rómur var gerður að skemmtidagskránni og ríkti mikil kátína, hlátur, auk þess sem fagnaðarlæti brutust út undir sumum atriðum. Eftir borðhald, þar sem borð svignuðu undan hefðbundnum þorrakræsingum var stiginn dans fram eftir nóttu.