![](/images/stories/news/folk/hafsteinn_hafsteinsson_enginnsa_0002_web.jpg)
Tvær tilnefningar austur í barnabókaverðlaunum
Bókaforlagið Bókstafur og höfundurinn Hafsteinn Hafsteinsson voru fulltrúar Austurlands þegar tilnefningar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur, elstu barnabókaverðlauna landsins, voru kynntar í gær.
Hafsteinn hlýtur tilnefningu fyrir best myndskreyttu barnabókina árið 2016. Hafsteinn gerði myndirnar og samdi söguþráðinn í bókinni Enginn sá hundinn sem er hans fyrsta bók en Bjarki Karlsson ljóðsetti hana.
Bókstafur fær tilnefninu í flokki best þýddu barna- og unglingabókina fyrir Einhverja Ekkineinsdóttur. Lemme Linda Saukas Ólafsdóttir þýddi úr eistnesku en bókin er eftir Kåtlin Kaldmaa.
Þetta er fyrsta eistneska barnabókin sem þýdd er á íslensku og sömuleiðis fyrsta bókin sem þýdd er beint af eistnesku á íslensku.
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir, forleggjari hjá Bókstaf, lýsti ánægju sinni með tilnefninguna í samtali við Austurfrétt. „Það er afar fátítt að jafnt ungt forlag og Bókstafur fái tilnefningu til verðlauna.“
Verðlaunin verða hefðinni samkvæmt afhent í Höfða síðasta vetrardag 19. apríl.