Tveir nýir leikmenn með Hetti í kvöld
Körfuknattleikslið Hattar hefur fengið tvo nýja erlenda leikmenn fyrir átökin framundan í 1. deild karla í körfuknattleik. Bandaríkjamanninn Akeem Clark og Pólverjann Milosz Krajewski. Höttur mætir Þór frá Akureyri í kvöld.
Clark er 26 ára bakvörður sem lék seinast með Halifax Rainmen í Kanada. Hannibal Guðmundsson, sem situr í meistaraflokksráði körfuknattleiksdeildar Hattar, segir honum ætlað að efla sóknarleik liðsins en hann sé með góðar sendingar og fínn skotmaður.
Pólski miðherjinn Milosz Krajewski er kominn aftur til Hattar en hann lék með liðinu tímabilin 2006/7 og 2007/8 í fyrstu deildinni. Samningur beggja er til tveggja mánaða.
Steinólfur Jónasson verður ekki með þar sem hann er farinn í heimsreisu og Georg Ögmundsson er frá vegna meiðsla fyrir leik Hattar gegn Þór á Egilsstöðum í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00.