Tvöföld opnun í Skaftfelli

Tvöföld sýningaropnun verður Skaftfelli, miðstöð myndlistar á Austurlandi, á laugardag kl. 16. Þann 10. til 19. júní næstkomandi munu Hiryczuk og van Oevelen sýna sviðsettar ljósmyndir í verkefnarými Skaftfells. Sýninguna nefna þau ,,Senur fengnar að láni”, en þar fást þau við samband fólks við umhverfi sitt og sýna það í þokkafullri fjarvídd myndavélarinnar. Hiryczuk og van Oevelen búa og starfa á Seyðisfirði um þessar mundir. Sýningin opnar formlega á laugardag og um leið opnar sýning Mörtu Maríu Jónsdóttur á Vesturveggnum í Skaftfelli. Sú sýning stendur til 25. júní.

borrowed_sceneries-skaftfellvefur.jpg

Senur fengnar að láni / Borrowed Sceneries

Hiryczuk/VanOevelen

   

Elodie Hiryczuk (fædd 1977 í Frakklandi) lærði myndlist í Amsterdam, en Sjoerd van Oevelen (fæddur 1974 í Hollandi) lærði arkitektúr í Amsterdam og London. Árið 2000 tóku Hiryczuk og van Oevelen upp samstarf við innsetningar sem fólu í sér hvorttveggja, viðfangsefni úr byggingarlist og hlutfallslega rétt líkön af landslagi. Upp úr því varð til ,,Landfall” (landsýn), ljósmynda-endurgerð af Surtsey í raunstærð, sem var komið fyrir í almenningsrými í Zuidas-hverfinu í Amsterdam.  Undanfarin ár hafa þau fengist við ljósmyndun. Á síðasta ári héldu þau sýninguna ,,Perspective of Disappearance” (dýptarskynjun), þar sem þau sýndu verk, unnin undir áhrifum af hinu manngerða, hollenska landslagi.

  

Sjoerd og Elodie munu leiða sýningargesti að bókabúðinni kl. 16:30 á laugardag og spjalla um verkin.

      

Marta María Jónsdóttir

Vesturveggurinn

   

Marta María lærði við málaradeild Listaháskóla Íslands og lauk MA Fine Art við Goldsmiths College í London árið 2000. Einnig hefur hún numið teiknimynda- og hreyfimyndagerð sem hún notar líka í sinni myndlist. Sem dæmi sýndi hún nýlega hreyfimynda-altaristöflu í samstarfi við Arnald Mána Finnsson, á sýningunni Orð Guðs á Listasafni Akureyrar. Hún myndskreytti og hannaði á síðast ári ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, To bleed straight.

   

Marta sýndi nýlega málverk og teikningar í Gallerí Ágúst. Málverk hennar eru samsett, lagskipt og tákna hvert sinn heim. Verkin eru á mörkum þess að vera teikningar og málverk. Flest eru þau óhlutbundin og oft birtast endurtekin form, munstur og stundum mandölur í bland við fljótandi lit.

   

Á Vesturvegg sýnir Marta ný málverk. Verkin eru unnin með akríl á striga en geometria, línur og form ráða ríkjum. Sum eru lagskipt þar sem glittir í óljósan bakgrunn en önnur einfaldari og eru eins konar teikningar á hörstriga. 

   

Sýningadagskrá Skaftfells sem og menningardagskrá ÁSeyði má nálgast á skaftfell.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar