Um 400 manns í kenderísgöngu

Áætlað er að um 400 manns hafi í gærkvöldi tekið þátt í bæjargöngu Franskra daga á Fáskrúðsfirði, eða kenderísgöngunni. Hóflegur metingur er á milli hverfanna í bænum sem skipuleggja stoppistöðvar með veitingum á leiðinni.

„Gangan í gærkvöldi var mjög fjölmenn. Margir brottfluttir eru búnir að skila sér aftur í bæinn. Við áætlum að það hafi um 400 manns mætt í hana. Það eru fleiri en oft áður þótt þetta sé ekki fjölmennasta gangan,“ segir Daníel Geir Moritz, framkvæmdastjóri Franskra daga.

Lagt var af stað frá skólanum og genginn hringur í bænum sem endaði á pípulagningaverkstæði Meta. Þar biðu leynigestir, tónlistarmennirnir Matti Matt og Vignir Snær auk þess sem dagarnir voru settir formlega. Það gerði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, en fulltrúi vinabæjar Fáskrúðsfjarðar í Frakklandi, Gravelines, tók einnig til máls. Nokkrir fulltrúar þaðan taka þátt í hátíðinni, meðal annars athöfn á morgun þar sem franskra sjómanna er minnst. „Þar var partý fram eftir kvöldi og fólk fór ánægt heim,“ segir Daníel Geir.

Á leið kenderísgöngunnar voru stoppistöðvar, skipulagðar af mismunandi hverfum. Meðal annars var boðið upp á drykki, vefjur, ís og franska súkkulaðiköku. „Hverfin skipuleggja sitt stopp og aðrir vita ekkert á hverju er von. Samkeppnin á milli þeirra er hófleg. Fólk vill gera vel en það er ekki farið í sérstakan meting.“

Verðlaunað fyrir bestu skreytingarnar


Hús og garðar á Fáskrúðsfirði eru þessa dagana skreyttir í litum viðkomandi hverfa. „Það er gaman að hverfastemmingin haldist hér því sums staðar annars staðar hefur fjarað undan henni. Við veitum verðlaun fyrir best skreytta húsið annars vegar og best skreytta hverfið hins vegar.

Fáskrúðsfirðingar fara á rúntinn og bera saman bækur sínar um hvað þeim þykir best skreytt en það er samt dómnefnd sem velur úr og það þýðir ekki að deila við hana,“ segir Daníel en úrslitin verða tilkynnt á fjölskyldudagskrá daganna á morgun.

„Fólki finnst gaman að glæða bæinn sinn lífi og hvetur hvert annað til að taka þátt, hvort heldur sem er í skreytingum eða viðburðum,“ bætir hann við.

Dagskrá frönsku daganna heldur áfram í dag. Meðal annars kemur Bjartmar Guðlaugsson, sem uppalinn er á Fáskrúðsfirði, fram þar í dag. „Það er orðið uppselt á tónleika hans í kirkjunni en svo verður hann líka í brekkunni í kvöld.

Hápunktur hátíðarinnar hefur annars verið fjölskyldudagskrá á laugardegi. Það hefur alltaf komið mikill fjöldi í bæinn á hana. Við í nefndinni erum mjög stolt af dagskránni í ár. Síðan verður Stuðlabandið með stórdansleik annað kvöld og sumarfjarðaball fyrir unglingana fyrr um kvöldið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.