Undirbúningur fyrir hundrað ára afmæli Sambands austfirskra kvenna þegar hafinn
Góður undirbúningur er jafnan forsenda þess að allt gangi vel í einu og öllu. Þess vegna má færa rök fyrir að hundrað ára afmæli Sambands austfirskra kvenna (SAK) árið 2027 verði allsérstakur viðburður því vinna er nú þegar hafin við að gera þau tímamót sérstök og eftirminnileg.
Aðalfundur sambandsins, sem samanstendur af tíu kvenfélögum á Austurlandi, fór fram snemma í þessum mánuði og var vel sóttur af rúmlega 40 konum hvaðanæva að úr fjórðungnum. Að þessu sinni gestgjafinn Kvenfélag Reyðarfjarðar en félögin skiptast á að halda aðalfundinn hvert ár.
Að sögn Helgu Magneu Steinsson, formanns SAK, var á fundinum rætt um ýmis mál er snerta kvenfélög landsins en megináhersla var þó á undirbúning fyrir hundrað ára afmælið eftir fjögur ár og ekki síður undirbúning fyrir Landsþing Kvenfélagasambands Íslands næsta haust.
„Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og þess vegna er vinnan hafin hjá félögunum hvernig við viljum halda upp á þessi hundrað ára tímamót. Fjölmargar hugmyndir þar á lofti en það er of snemmt að ræða um þær nánar. Við útilokum ekkert að afmælishátíðin verði meira en bara einn dagur og jafnvel nokkrir dagar af viðburðum en það kemur í ljós síðar.“
Öll stjórn sambandsins gaf kost á sér að nýju og fengu öll kosningu. Það eru þær Ásdís Bóasdóttir og Elinóra Ósk Harðardóttir frá Kvenfélagi Reyðarfjarðar, Drífa Ragnarsdóttir frá Vöku á Djúpavogi, Helga Magnea frá Nönnu í Neskaupstað og Vilmundína Lind Kristjánsdóttir frá Bláklukku á Egilsstöðum.
Frá fundinum á Reyðarfirði um daginn. Markmið kvenfélaganna í dag eru þau sömu og þau hafa alltaf verið: að láta gott af sér leiða í samfélögum sínum auk ýmis konar fræðslu og menningarstarfsemi. Mynd SAK