Unglingarnir spenntir að stytta þeim eldri stundir með leik eða söng

Athyglisverð hefð gæti verið að skapast meðal þeirra 9. og 10. bekkinga sem heimsækja listaakademíu Verkmenntaskóla Austurlands (VA) en unglingarnir hafa að tilstuðlan kennara síns endað lærdómsferðina með heimsókn á hjúkrunardeild HSA í Neskaupstað og stytt þeim eldri stundirnar með ljóðum og söng.

Þetta hafa nú þrír hópar gert það sem af er skólaárinu og einn hópur til mun líklega endurtaka leikinn í desember að sögn Margrétar Perlu Kolku kennara í VA. Hún segir þessar ferðir gera öllum gott og krökkunum finnist þetta spennandi.

„Þetta gæti ekki hafa heppnast betur held ég. Þetta eru sem sagt krakkarnir í efstu bekkjum grunnskólanna í sveitarfélaginu sem koma í svona kynningarval í ýmsum greinum hér í VA í stuttan tíma. Ég er með listaakademíuna og sjálf hef ég gegnum tíðina farið og sungið fyrir íbúa á hjúkrunardeildinni. Mér fannst tilvalið að prófa þetta áfram með krökkunum og þetta tekist ótrúlega vel. Þeim finnst gaman að prófa að syngja eða fara með ljóð fyrir áhorfendur og það kannski auðveldara fyrir þau en að gera það fyrir framan jafnaldrana. Að sama skapi leiðist þessum eldri ekkert að hlusta og brjóta aðeins upp daginn með skemmtun því það er oft ekki svo mikið um að vera á deildinni. Við endum þetta líka alltaf á að fá okkur kaffi saman og vöfflur og það fer alltaf vel á með öllum. Ég vona innilega að næsti hópur eða jafnvel hópar í framtíðinni haldi þessu áfram svo þetta verði beinlínis að hefð.“

Þriðji hópurinn úr VA með íbúum hjúkrunardeildar HSA í Neskaupstað fyrir skömmu. Áhugi er báðum megin borðsins að halda slíkum uppákomum áfram. Mynd VA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar