Föndra ýmsar jólavörur til að styrkja ungmennafélagið á Djúpavogi

Máluð jólakort, handgert súkkulaði, jóla- og kertaskreytingar. Aðeins þrennt af því sem ungmennin í unglingaráði Neista á Djúpavogi hyggjast bjóða til sölu á sínum eigin bás á jólabasar kvenfélagsins Vöku sem haldinn verður í Löngubúð á morgun.

Tiltölulega óvenjulegt að ungmenni setji upp sinn eigin bás með varningi á slíkum stundum en að sögn Ágústu Margrétar Arnardóttur, framkvæmdastjóra Neista, eru krakkarnir að gera þetta í fjáröflunarskyni til að geta haldið úti öflugu og skemmtilegu starfi innan Neista. Kostnaður ungmennafélaga eykst ekki síður en annarra í þjóðfélaginu með vöxtum og verðbólgu og þrátt fyrir góða styrki frá fjölda fyrirtækja í bænum og nágrenninu þá þarf meira til.

Ágústa Margrét segir þó lítinn vafa leika á að uppgangur sé í félaginu enda varla til betri vettvangur til að stuðla að heilbrigði og vellíðan unglinga en þátttaka í þeim fjölda viðburða sem þar er boðið upp á. Hún tók sjálf við sem nýr framkvæmdastjóri um miðjan september en þá var þar enginn slíkur né heldur þjálfarar og sjálf stjórnin undirmönnuð.

„Þetta leit ekkert sérstaklega vel út í haust og mitt fyrsta verk var að óska eftir þjálfurum en það skilaði sér ekki. Þá ákvað ég að leita beint í mannauðinn hér í bænum og það skilaði sér heldur betur. Fjöldi fólks breytti vinnutilhögun og frítíma til að hjálpa til enda sjaldan verið jafn fjölbreytt dagskrá hjá Neista og nú er. Við erum í knattspyrnu, körfu, frjálsum íþróttum, lyftingum, borðtennis og badminton auk þess að vera með unglingaráðið sjálft svo nokkuð sé nefnt. Mér telst til að um 85% nemenda í Djúpavogsskóla taki þátt í starfinu með okkur.“

Ágústa segir afar mikilvægt í litlu samfélagi þar sem jafnan sé almennt lítið um að vera að koma á fót öflugu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni. Það sé sannað að fátt sé jákvæðara en samvera og virkni í slíku starfi og það sé kannski sérstaklega mikilvægt á stað eins og Djúpavogi sökum þess að þar séu börn og unglingar beinlínis fleiri talsins en þeir fullorðnu.

Það er sannarlega hagur allra að styðja við ungmennafélagsstörf í landinu. Neisti er og hefur sem betur fer verið með öfluga styrktaraðila undanfarin ár sem gerir félaginu kleift af að starfa. En með ört vaxandi verðbólgu, auknum launa- og rekstrarkostnaði, auknum kostnaði í búnað, aðföng, mót og ferðalög þarf miklu meira til. 

Við hvetjum því alla til að versla við unglingaráð Neista á sölubásnum sínum í Löngubúð næsta þriðjudag en einnig er hægt að panta vörur og fylgjast með Neista á facebook síðu Neista.

Ungmennin í unglingaráði Neista að undirbúa basarsöluna á morgun í Löngubúð. Sá basar kvenfélagsins á staðnum verður opinn milli 17 og 19. Mynd aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar