Unimog-inn kominn heim til Seyðisfjarðar

Unimog-bifreið björgunarsveitarinnar Ísólfs, sem skemmdist mikið í stóru skriðunni sem féll á Seyðisfjörð fyrir sléttum þremur árum, kom aftur heim í sumar eftir umfangsmiklar viðgerðir.

„Þetta tók tvö og hálft ár. Það var ýmislegt sem olli því eins og gengur og gerist í bílaheiminum enda var þetta stórt verkefni. Hann fór á tvo staði, eitt fyrirtæki lagaði boddíið og hitt rafkerfið,“ segir Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar.

Unimog-inn var á vaktpósti þegar skriðan kom niður rétt fyrir klukkan þrjú föstudaginn 18. desember árið 2020. Hún lenti á bílnum og stórskemmdi sérstaklega framenda hans. Þá þurfti að endurnýja rafkerfið í bílnum eftir hamfarirnar. Einn björgunarsveitarmaður var í bílnum. Hann slapp ómeiddur.

Bílinn stóð síðan á yfirlýstu hættusvæði dagana á eftir. Ekki mátti fara á honum heldur stóð hann þar á ljósum þar til hann varð rafmagnslaus.

Bílinn er 2002 árgerð en keyptur notaður til Seyðisfjarðar þar sem hann var gerður upp af verksmiðjunni Stáli. Um ár leið frá því þeim endurbótum lauk þar til skriðan féll. „Hann kom gulur og frekar ófríður til landsins. Stál gerði hann fallegan. Við vorum hins vegar farnir að nota hann áður en því var lokið,“ rifjar Helgi upp.

Ísólfur keypti breyttan Ford 350 bíl til að sinna verkefnum Unimog-sins í fjarveru hans en bíllinn er sveitinni mikilvægur þegar hjálpa þarf fólki á Fjarðarheiði.

„Unimog-inn hefur verið eitt aðaltækið okkar þar. Hann er hár og öflugur þannig hann nýtist vel á heiðinni í vondum veðrum og ófærð. Hann er með öflugt spil þannig lítið mál er að toga það sem færa þarf til. Við erum því mjög kátir með að hann sé kominn heim.“

Helgi keyrir Unimog-inn og fer fyrir gleðigöngunni á Seyðisfirði í sumar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar