Upplýsingaskilti um manninn á bakvið Kobbasíurnar

Á Djúpavogi var nýverið sett upp upplýsingaskilti um Jakob Gunnar Gunnarsson, skósmið sem gerði gúmmískó sem kölluðust „Kobbasíur“ og eldri Djúpavogsbúar sem fleiri Austfirðingar hafa átt minningar um.

„Afkomendur hans búa á Fáskrúðsfirði og hafa lengi haft áhuga á að varðveita sögu Jakobs og verið í sambandi við mig. Jakob var giftur ömmusystur minni þannig ég hafði heyrt sögu hans sem alltaf var talin merkileg saga,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson.

Jakob fæddist í Fögruhlíð á Djúpavogi árið 1886 og bjó þar allt þar til hann lést árið 1942. Jakob var frumkvöðull í sér og hélt árið 1903 til Reykjavíkur til að læra skósmíði. Hann snéri aftur nokkrum árum síðar að loknu námi.

Hann byggði lítið hús við lækinn neðan við Fögruhlíð sem fékk nafnið Fabrikkan. Jakob hlóð upp litla stíflu í ánni og bjó til lón og rafstöð sem skilaði sex voltum. Það dugði til að knýja hjól sem á var sandpappír og raspa gúmmí til skógerðar.

Skórnir voru kallaðir „Kobbasíur“ og nutu vinsælda því í þeim var gúmmí sem gerði þá vatnshelda. „Í minningunni átti ég svarta skó sem kallaðir voru Kobbasíur. Ég held þó að hann hafi ekki smíðað þá, hann er látinn töluvert löngu áður en ég væðist. Ég man hins vegar eftir kofanum, Fabrikkunni. Jakob var mikið í Brekku þar sem afi og amma bjuggu.“

Enn munu vera til eintök af Kobbasíum. „Það birtist mynd á Facebook nýverið af tveimur pörum,“ segir Ólafur Áki.

Ingimar Sveinsson frá Djúpavogi skrifaði grein um Jakob í Múlaþing árið 2007. Þar segir hann um Kobbasíurnar að flestir krakkar í þorpinu hafi gengið á þeim enda þær verið léttar. Eins hafi þær verið vinsælar í vætutíð og fjallgöngum. Hann tekur líka fram að Jakob hafi átt tæki til að sóla slitna spariskó og minnist þess að hafa verið nokkrum sinnum sendur með skó í sólun til Jakobs. Ingimar rifjar ennfremur upp að Jakob hafi verið hagyrtur og ort kvæði sem sungin voru á mannamótum á Djúpavogi. Því miður hafi þau ekki verið skráð og séu flest glötuð.

Afkomendur Jakobs, systkinin Jakob Smári Júlíusson og Halla Dröfn Júlíusdóttir með Ólafi Áka við skiltið. Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar