Uppskeruhátíð Skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð
Fimmtudaginn 5. ágúst frá 17 til 18:30 verður opnun á listasýningu Skapandi sumarstarfa í Fjarðabyggð en segja má að sýningin sé uppskeruhátíð sumarsins. Sýningin er í Valhöll á Eskifirði og verður einnig opin á föstudaginn á milli 15 og 17 og á laugardaginn frá 12 til 16.
Í allt sumar hafa þau Helena Lind, Jónatan Leó, María Rós, Bryndís Hugadóttir og Daníel Örn unnið við Skapandi sumarstörf í Fjarðabyggð en þau eru búsett á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði.
Skapandi sumarstörf er verkefni sem hefur það að markmiði að gefa ungum listamönnum á aldrinum 16-25 tíma og rými til að fást við listsköpun yfir sumartímann. Áhugasvið þeirra liggja víða og hafa þau verið að vinna við alls kyns listsköpun í sumar; myndlist, tónlist, kvikmyndagerð og margt fleira.
Á sýningunni má sjá lokaverkefni þeirra sem og upprifjun á því sem þau hafa verið að fást við í sumar.
Á myndinni má sjá eitt af verkefnum Skapandi sumarstarfa en listamennirnir skreyttu bílskúrinn á Valsmýri 5 þar sem bílskúrstónleikar hafa farið fram alla þriðjudaga í júní og júlí síðustu fimm sumur.