Útisýning með ljósmyndum frá stríðsárunum á Reyðarfirði

Sýning með myndum frá hernámsárunum á Reyðarfirði hefur verið sett upp á túninu milli smábátahafnarinnar og verslunar N1 í bænum. Ekkert varð hins vegar af hátíðarhöldum í tilefni hernámsdagsins þar að þessu sinni og Stríðssárasafnið er lokað vegna endurbóta.


Miklar skemmdir urðu á Stríðsárasafninu í fárviðrinu sem skall á Reyðarfirði í lok september í fyrra. Í kjölfar þess þurfti meðal annars að fjarlægja tvo bragga á lóð safnsins.

„Framundan standa yfir miklar framkvæmdir á safnhúsinu sjálfu. Það er ekki ljóst hvenær framkvæmdum lýkur en það er á hreinu að safnið verður opnað á ný,“ segir Haraldur Líndal Haraldsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar.

Stríðsárasafnið var opnað sumarið 1995 til að gera fólki að ferðast aftur til stríðsáranna og kynnast þeim áhrifum sem herseta erlends herliðs hafði á íslensku þjóðina. Hlutfall erlendra hermanna samanborið við íbúa hefur óvíða verið meira en á Reyðarfirði. Íbúarnir voru þá um 300 en hermennirnir allt að 4000.

Breskt herlið kom til Reykjavíkur og hernam þar með Ísland 10. maí árið 1940. Það breiddi síðan úr sér yfir landið og kom til Reyðarfjarðar 1. júlí. Frá árinu 2008 hafa verið hátíðahöld í kringum hernámsdaginn í bænum en þau féllu niður í ár, í fyrsta sinn í 15 ár.

Haraldur segir að hátíðin hafi komist á fyrir framtak vaskra Reyðfirðinga með stuðningi Fjarðabyggðar. „Þegar þátttaka var sem mest var þetta orðin heil helgi eða einskonar bæjarhátíð.“

Síðar hafi ábyrgðin færst meira á sveitarfélagið og hernámsdagurinn breytt um svip. Einkum eftir Covid-19 faraldurinn hafi umfangið minnkað.
„Þórður Vilberg Guðmundsson, sagnfræðingur, var einmitt með fyrirlestur í fyrra og Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) árið áður. Það var alltaf partur af þessu að hafa frítt inn á safnið en nú þegar það er ekkert safn virtist sem grundvöllurinn fyrir hátíðinni væri ekki til staðar,“ segir Haraldur.

Sem fyrr segir er unnið að endurbótum safnsins sem mögulega gæti þá aftur orðið heimavöllur hernámsdagsins. Haraldur segir að helst ljósmyndir og stærri eftirprentanir á veggjum hafi skemmst í fyrrahaust. Munir sem safnið eignaðist í fyrra og stærri munir hafi sloppið.

Myndasýningunni á túninu er ætlað að fylla upp í hluta þess tómarúms sem myndast hefur tímabundið með lokun safnsins. Til skoðunar er að færa útimuni safnsins þangað líka. „Vonandi kemur svo hernámsdagurinn líka tvíefldur til baka að ári.“

stridsarasafn grunnar reydarfjordur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar