Valdimar vill leiða listann áfram
Valdimar O. Hermannsson, oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, gefur kost á sér í fyrsta sætið á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Fjarðabyggð í vor.
Valdimar er fæddur árið 1960 og starfar sem innkaupa- og rekstrarstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Hann er í staðfestri sambúð með Vilborgu Elvu Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingi og eiga þau samtals 4 börn.
Valdimar hefur á núverandi kjörtímabili, sem bæjarfulltrúi, verið aðalmaður allt kjörtímabilið í bæjarráði Fjarðabyggðar, formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands, HAUST, og einnig starfað sem stjórnarformaður í Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, SHÍ. Þá hefur hann gengt trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. í skipulags- og sveitarstjórnarráði, auk annarra.
Á síðasta aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, var Valdimar kjörinn í stjórn og framkvæmdaráð SSA. Valdimar hefur áratugareynslu af félagsmálum, stjórnun og rekstri.
Í yfirlýsingu segist hann vilja með framboðinu nýta þá fjölbreyttu reynslu og þekkingu sem liðsmenn flokksins hafi aflað sér á vettvangi sveitarstjórnarmála „og ná enn betri árangri í komandi sveitarstjórnarkosningum, með öflugum framboðslista, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn verði ráðandi afl í bæjarstjórn Fjarðabyggðar á næsta kjörtímabili.“
Valið verður með póstkosningu meðal flokksfélaga í Fjarðabyggð í febrúar.