Valið um hvar fólk deyr
Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) vinnur nú að þjálfun starfsfólks sem á að vera tilbúið til stuðnings á fleiri stöðum en áður þegar mikið veikir einstaklingar óska eftir að njóta líknandi meðferðar sem næst heimahögunum. Þar með er þjónustan tryggð þegar upp koma aðstæður eins og þegar Anna Gunnlaugsdóttir lést í fyrra. Aðstandendur hennar söfnuðu fé þannig hægt var að innrétta tvö herbergi fyrir líknandi þjónustu á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum.Vorið 2021 gaf heilbrigðisráðuneytið út aðgerðaáætlun um líknarþjónustu fram til ársins 2025. Eitt af markmiðum hennar var að koma á fót almennum líknarrýmum í öllum heilbrigðisumdæmum. Þá er í henni fjallað um líknarþjónustu á bæði hjúkrunarheimilum og í heimahúsum.
Á vegum HSA hafa nú verið skilgreind starfshlutföll tveggja starfsmanna, annars vegar á efra svæði, hins vegar á neðra svæði stofnunarinnar, sem eru að afla sér þekkingar um líknandi þjónustu og munu síðan leiða hana innan svæðisins til frambúðar.
„Aðgerðaáætlunin gerir það að verkum að þessi þjónusta verður í boði úti á landi, ekki bara í Reykjavík og á Akureyri,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA.
Starfsmennirnir verða með lista yfir fagfólk er tilbúið að koma til aðstoðar þegar á þarf að halda. Sjúkrahúsið á Akureyri verður síðan þar á bakvið.
Héldu þetta væri lungnabólga
Líknarteymið var ekki komið í gang þegar Anna Gunnlaugsdóttir, íbúi í Fellabæ, hóf líknandi meðferð í júní í fyrra. Anna gat ekki hugsað sér annað en kveðja sem næst heimahögunum og ættingjar hennar gengu í að láta þá hinstu ósk rætast. Á leiðinni voru hins vegar hnútar sem þurfti að leysa. Það tók á því tíminn var, eins og stundum í svona tilfellum, naumur.
„Þann 7. apríl 2022 var hringt í mig þar sem ég var í vinnunni og ég beðin um að koma heim. Mamma hafði fengið Covid eftir ferð með eldri borgurum. Þarna var hún farin að rugla og þegar ég kem sé ég að hún er mjög veik. Við óskum eftir aðstoð og hún er send á Norðfjörð með það sem við héldum vera lungnabólgu.
Ég man dagsetninguna vel því ég og Þröstur (Indriðason) ætluðum að gifta okkur daginn eftir. Við höfðum ekki látið neinn vita af því en ég sagði mömmu frá áður en hún fór í sjúkrabílinn,“ segir Sigrún Jóna Hauksdóttir, dóttir Önnu.
Erfitt fyrir alla að hafa sjúklinginn í heimahúsi
En það var ekki lungnabólga sem þjakaði Önnu. Eftir um viku í rannsóknum á sjúkrahúsinu í Neskaupstað var ljóst að hún væri með krabbamein. Anna þurfti að bíða í nokkra daga eystra áður en pláss fékkst fyrir hana á krabbameinsdeild Landsspítalans. Þar tóku við frekari rannsóknir og niðurstaða þeirra var að Anna væri með krabbamein í maga á fjórða stigi sem ekki væri hægt að lækna en mögulega hægt að halda niðri með lyfjagjöf. Hún lukkaðist ekki.
Eftir um mánuð á Landsspítalanum var Önnu flogið austur í sjúkraflugvél. Hún dvaldi í faðmi fjölskyldunnar í um viku. „Við fengum lánað sjúkrarúm handa henni og hjúkrunarfræðingar komu heim til að sinna henni. Þarna fengum við nasaþefinn af því að hafa hana svona mikið veika heima,“ segir Sigrún Jóna.
Eftir þetta var ákveðið að reyna aftur lyfjagjöf. Hún skilaði ekki frekari árangri en sú fyrri og þegar kemur að hvítasunnuhelginni, 6. og 7. júní, hrakar heilsu Önnu verulega. Sigrún Jóna fer suður ásamt systkinum sínum til að vera með móður sinni og hennar manni, Agnari Eiríkssyni. „Þarna fáum við að vita að það sé mjög stutt eftir. Mamma segir strax: Ég vil deyja heima.“
Fjölskyldan lét reyna á möguleikann
En hvað er heima? Sigrún Jóna segir hvorki Önnu né öðrum í fjölskyldunni hafi liðið vel með að hún yrði inni á heimilinu, á það hafi verið komin reynsla. Fljótlega hafi orðið ljóst að í boði væri að koma austur á Norðfjörð en það hafi Önnu þótt leiðinlega langt í burtu. Þá var kosturinn að óska eftir umönnun á Dyngju, þar sem fjölskyldan vissi að væru skilgreind herbergi fyrir einstaklinga í líknandi þjónustu. En það var samt ekki hlaupið þangað inn.
„Við förum að spyrjast fyrir um þennan möguleika. Það er tekið jákvætt í hann en við fáum aldrei ákveðið svar. Það virtist stífni gagnvart Dyngju.“
Erfitt að vera syðra
Sigrún bendir á að þarna hafi verið komin upp erfið staða því krabbameinsdeildin á Landsspítalanum hafi viljað koma Önnu annað til að geta haft laust pláss fyrir næsta sjúkling í meðferð. Þar hafi þó fengist stuðningur í hjúkrunarfræðingi sem var að vinna háskólaritgerð um líknandi þjónustu í heimabyggð.
Einn af kostunum var vissulega líknardeildin í Kópavogi en sá kostur var heldur ekki góður. „Deyjandi einstaklingur vill hafa fólkið sitt í kringum sig. Mamma átti fjögur börn, stjúpson og fullt af barnabörnum. Við höfðum ekki húsnæði til að dvelja í Reykjavík meðan hún væri á líknardeildinni.“
Anna þáði loks að koma austur á Norðfjörð og bíða þar ef plássið á Dyngju opnaðist. Hún kom þangað 10. júní. Fjölskyldan hélt áfram að þrýsta á pláss á Dyngju. Sigrún segir það hafa verið erfitt að róa móður sína, fást við eigin tilfinningar og vera að auki að þrýsta á kerfið til að fá hinstu ósk móður hennar uppfyllta. „Mamma var mikil baráttukona og beit þetta í sig.“
Þann 16. júní kom jákvætt svar og Anna var flutt með sjúkrabíl upp í Egilsstaði. Þá var ekki langt eftir. Sigrún Jóna segir að meðvitund Önnu hafi farið að gefa sig á 69. afmælisdegi þann 18. júní. Hún lést tveimur dögum síðar, 20. júní 2022. „Þetta var dýrmætur tími fyrir bæði hana og okkur. Hún átti mikið af skyldfólki, einn daginn komu 30 manns að heimsækja hana á Dyngju.“
Tvö herbergi fyrir líknarþjónustu
Fljótlega eftir að Anna lést kviknaði hugmyndin um að heiðra minningu hennar með að styrkja heilbrigðisþjónustuna á Fljótsdalshéraði. Hugmyndin var smærri í sniðum fyrst en vatt upp á sig enda stór ætt að baki Önnu. Fyrir það fé sem safnaðist voru keypt sjúkrarúm, lyfjadælur og innanstokksmunir, svo sem sófar fyrir aðstandendur. Þetta er notað til að innrétta tvær stofur á Dyngju.
Þjónusta líknarteymisins verður verður í boði víðar en á Dyngju. „Við getum líka boðið fólki inn á sjúkrahúsið í Neskaupstað og hjúkrunarheimilin Fossahlíð á Seyðisfirði og Uppsali á Fáskrúðsfirði. Við prófuðum kerfið nýlega á Seyðisfirði. Það gekk ótrúlega vel og aðstandendur voru mjög þakklátir,“ segir Nína Hrönn.
Aðspurð um á hverju hafi helst flækst fyrir áður fyrr, eins og í tilfelli Önnu, bendir hún á þjálfun starfsfólks. „Þetta umrædda tilfelli kom upp á sumarleyfistíma. Stundum hefur ekki mannskapur verið fyrir hendi. Við höfum heldur ekki alltaf getað verið viss um að allir hefðu rétta þjálfun. Á því er tekið í áætlun heilbrigðisyfirvalda með að stofna deildir á Landsspítalanum og SAk til að leiðbeina okkur úti á landi.“
Nína segir að með tilkomu verkefnastjóranna verði viðbragðið mun snarpara. „Þegar verkáætlunin verður tilbúin og við búin að æfa okkur á henni þá á almennt ekki að taka nema sólarhring að ræsa út allt kerfið. Verkefnastjórarnir munu koma miklu fyrr inn í meðferðina og eiga samvinnu við fjölskyldurnar á fyrri stigum. Þá verður kominn ákveðinn aðili til að fjölskyldurnar þurfi ekki að standa í þessu.“
Frá afhendingu styrksins. Agnar Eiríksson, eiginmaður Önnu, Guðjón Hauksson, forstjóri HSA og Auður Anna Ingólfsdóttir frá HHF.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.