Vara við tækifærispólitík

Fullveldissinnar finna aldrei flöt á fullveldisafsali, segir í fréttatilkynningu frá L-lista fullveldissinna. Listinn varar alvarlega við tækifærispólitík og hentistefnu gömlu stjórnmálaflokkanna sem hvergi verði átakanlegri en í orðræðu Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um ESB mál. Í hádegisfréttum og viðtali við Fréttablaðið í vikunni sagðist Steingrímur J. Sigfússon formaður VG geta fundið þann flöt á Evrópumálunum sem samrýmist stefnu Samfylkingar.

l-listinn_enginn-bakgrunnur.gif

 

L-listi fullveldissinna hafnar því alfarið að hægt sé að starfa með Samfylkingunni á grunni þeirrar stefnu sem flokkurinn setur nú í öndvegi að sækja um aðild að ESB. Fullveldissinnar telja að fullveldi og frelsi þjóðarinnar stafi hætta af þeirri hentistefnu sem birtist í orðum formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.

Þá lýsa fullveldissinnar yfir vonbrigðum með þá stefnubreytingu sem orðin er hjá Sjálfstæðisflokki þar sem nú er lögð áhersla á marklausar forkosningar um ESB aðild. Slík kosning getur veikt samningastöðu Íslands og orðið fyrsta skref í þrautagöngu ESB kosninga sem eiga sér þann einan endi að almenningur samþykki kröfur ESB. Reynsla Evrópuþjóða af lýðræði ESB er að þar fær almenningur að kjósa ítrekað um sömu hugmyndir þar til krafa ESB hefur verið samþykkt. Eftir það er ekki efnt til kosninga og mikil vafamál að þjóðir geti hrint af sér því helsi sem ESB leggur á frelsi og fullveldi sinna aðildarríkja.

L-listi fullveldissinna telur að stjórnvöld hafi ekki frjálsar hendur um að véla með fullveldi Íslands með þessum hætti nema fyrst sé ráðist í breytingar á Stjórnarskrá. Fullveldissinnar telja að breyting á fullveldisákvæðum Stjórnarskrár geti því aðeins talist marktæk að bakvið þá kosningu sé aukinn meirihluti þjóðarinnar eða 2/3 hlutar hennar. Enda er við fullveldisafsal opnað fyrir að leggja á þjóðina  og komandi kynslóðir ok og helsi erlends valds.

 

(Fréttatilkynning 30. mars 2009)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar