Varar við frestun framkvæmda við snjóflóðavarnir
Bæjarráð Fjarðabyggðar varar við þeirri ákvörðun um frestun framkvæmda við Tröllagil í Norðfirði sem tilkynnt er í bréfi umhverfisráðuneytisins dags. 7. október 2009. Í tilkynningunni kemur fram að fyrri áætlanir um framkvæmdir við þver- og leiðigarð neðan Tröllagils á Norðfirði geti ekki gengið eftir og væntanlega hafi ofanflóðasjóður ekki fjármagn til verkefnisins fyrr en á árinu 2013.
Bæjarráð ályktaði um frestun framkvæmda við snjóflóðavarnir í Tröllagili á Norðfirði á fundi sínum 13. október sl. ,,Bæjarráð minnir á að þegar framkvæmdir hófust við snjóflóðavarnir í Drangagili á Norðfirði var ákveðið að varnargarðar ofan byggðar í Neskaupstað skyldu reistir í samfellu. Framkvæmdum við Drangagil lauk árið 2002 og átti þá að hefja varnir við Tröllagil enda snjóflóðahætta á landinu ekki metin meiri annars staðar. Þær framkvæmdir frestuðust m.a. vegna þenslu á svæðinu. Sú röksemd á ekki við lengur. Ofanflóðasjóður býr samkvæmt nýjasta ársreikningi yfir tæplega 6 milljörðum kr. í eigin fé og hefur það hækkað um rúmlega milljarð kr. milli ára.. Tekjur ofanflóðasjóðs eru árlegt gjald sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir. Fjármunir ofanflóðasjóðs eru því sérstaklega innheimtir til þess að vinna að vörnum gegn slysum af völdum snjóflóða en ekki almennur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir 592 milljónum kr. í framkvæmdir á vegum sjóðsins en fjármagnstekjurnar einar og sér voru 676 milljónir kr. árið 2008. Í fjárlagafrumvarpinu er þar að auki gert ráð fyrir 1400 milljónum kr. í tekjur af ofanflóðagjaldi.
Það er bæjarráði Fjarðabyggðar óskiljanlegt að áform séu uppi um að fresta þessari framkvæmd sem nýverið var kynnt bæjaryfirvöldum og bæjarbúum – framkvæmd sem snertir stærstu öryggishagsmuni – framkvæmd sem fjármunir eru til fyrir – og framkvæmd sem mikil þörf er fyrir til vegna atvinnulífshagsmuna á staðnum. Bæjarráð krefst þess því að ákvörðunin verði afturkölluð og horft til þess að sagan sýnir að í húfi eru ríkustu hagsmunir sem um getur.“