Vel yfir fimm þúsund manns sótt sýningar Skaftfells á árinu

Enn eitt árið fagnar myndlistarmiðstöðin Skaftfell á Seyðisfirði stórkostlegri aðsókn en vel yfir fimm þúsund einstaklingar sóttu þær átta sýningar sem fram fóru í aðalsýningarsal miðstöðvarinnar þetta árið.

Svo skrifar Celia Harrison, forstöðumaður miðstöðvarinnar, í jólakveðju sinni þar sem hún færir öllum aðstandendum sem og gestum góðar hjartans kveðjur meðan hún rifjar upp sýningarhaldið árið 2024.

Þó sýningar í aðalsal Skaftfells hafi trekkt þennan mikla fjölda gesta er heildarfjöldinn enn meiri sem rýnt hefur verk á sýningum Skaftfells enda fara einnig fram sýningar á neðri hæð hússins í Skaftfell Bistró en þar voru haldnar einar sex sýningar að auki.

Þá tók Skaftfell á móti 25 gestalistamönnum í vinnustofudvöl á árinu sem er að líða, fræðslustarfssemi miðstöðvarinnar aldrei verið viðameiri og námskeið haldin í skólum Austuralands auk móttöku listafólks frá Listaháskóla Íslands um tveggja vikna skeið. Þá var og flott aðsókn að Miðsumarsgötuhátíð Skaftfells.

Komandi ár lofar einnig góðu að sögn Celiu:

Nú þegar árið 2025 nálgast hlökkum við til að bjóða ykkur velkomin til kröftugs sýningarstarfs okkar, þar á meðal samsýningar sem mun opna List í ljósi hátíðarina í febrúar, vorsýningu Ra Tack og Julie Lænkholm, og sumarsýningu á verkum Jóhannesar Kjarval í samstarfi við Listasafn Íslands. Alþjóðlega gestavinnustofan okkar dafnar á næsta ári og með stuðningi Nordic Culture Point tekur Skaftfell á móti fjórum listamönnum um haustið, auk þess sem boðið verður upp á prentlistamannadvöl í samstarfi við Prentverk Seyðisfjörður í árslok.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar