Verk Stefaníu valið áfram í Upptaktinn af 75 verkum
Í febrúar fór fram tónlistarsmiðja Upptaktsins á Austurlandi. Þar voru 15 þátttakendur sem sendu 8 lög í Upptaktinn. Það var verk Stefaníu Þ.V. Áslaugardóttur, „You don't brake me“, sem var valið áfram úr innsendingum tónlistarsmiðju Upptaktsins á Austurlandi og Tónlistarmiðstöðvarinnar.
Alls bárust 75 verk í Upptaktinn og þar af komu 8 frá ungum tónsmiðum á Austurlandi en 13 verk voru valin til áframhaldandi vinnu með tónskáldum í Upptaktinum.
Tónsmiðjan var haldin í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði. Þar voru lögin/verkin hljóðrituðuð með Vinny í Studíó Síló. Leiðbeinendur í smiðjunni voru Jón Hilmar Kárason, Vinny Wood og Charles Ross ásamt Jóhanni Ágústi Jóhannssyni og Hreini J. Stephensen frá Menningarstofu Fjarðabyggðar.
Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, segir tónlistarsmiðjuna hafa verið skemmtilegt og lærdómsríkt ferli fyrir krakkana. „Þetta var eins og ávallt gríðarlega gaman og auk þess mjög lærdómsríkt ferli fyrir krakkanna sem hafa nú fengið að vinna í hljóðveri og eru spennt að halda áfram á sköpunarbrautinni,” segir Jóhann.
Lag Stefaníu heldur nú áfram för sinni í Upptaktinum. Stefanía fær að vinna lagið áfram með tónskáldi í LHÍ og verður það gert tilbúið til flutnings á tónleikum Upptaktsins á opnunardegi Barnamenningarhátíðar þann 18. apríl næstkomandi.
Mynd: Stefanía flytur lagið sitt í tónsmiðjunni á Stöðvarfirði