Verktakar gætu átt möguleika erlendis

Verkefnastaða jarðvinnuverktaka á Fljótsdalshéraði er þokkaleg fyrir komandi vor og sumar. Austfirskir verktakar gætu mögulega leitað eftir verkefnum fyrir stóra erlenda aðila eins og Bechtel á erlendri grund.

13_29_29---tracked-digger-bucket-working-in-a-river_web.jpg

Verkefnastaðan sæmileg fyrir sumarið hjá jarðvinnuverktökum á Héraði

Héraðsverk er með þrjú stór vegagerðarverkefni fyrir sumarið, Myllan heldur áfram verkefnum við Fjarðarárvirkjun og Ylur verður í vegagerð í Hjaltastaðarþinghá. Þessum verkefnum á að ljúka í ár.

Unnar Elísson, eigandi Myllunnar, sagði á atvinnumálaþingi á Egilsstöðum nýlega, að verktakar á Héraði þyrftu líklega að ráða á bilinu 100 til 140 manns til viðbótar þeim mannskap sem fyrir er í verkefni ársins. Ný útboð Vegagerðar í ár séu á Vopnafjarðarheiði, tenging frá Hólaskarðsvegi á Raufarhöfn og vegagerð í Skriðdal. Þeim hafi verið fresta í fyrra vegna kreppunnar, margir hafi boðið í  en ekki ljóst hver hreppi verkefnin. ,,Hinn mikli samdráttur í framkvæmdum á landsvísu, hátt vaxtastig, há verðbólga og vantrú annarra þjóða á íslensku krónunni er ekki til að auka bjartsýni,“ sagði Unnar í erindi sínu.

  Út fyrir landsteina  

Unnar sagði austfirska verktaka þurfa að hagræða í rekstri og sníða fyrirtækjunum stakk eftir vexti. Mikilvægt sé að sækja vinnuna um allt land eins og gert hafi verið á síðustu árum. Hann sagði að sóknarfæri fyrir austfirska verktaka gætu falist í að sækja eftir verkum hjá þeim erlendu stórfyrirtækjum sem starfað hafa að til dæmis álversbyggingunni og jarðgangagerð á Austurlandi. Nefndi  hann þar meðal annars Bechtel til sögunnar. ,,Kostnaður við vélaflutninga frá Egilsstöðum þvert yfir landið er sáralítið ódýrari en að fara með vélakostinn í ferjuna á Seyðisfirði og flytja hann yfir á meginlandið eða Skandinavíu til verkefna. Markaðurinn erlendis er sjálfsagt ekkert þrengri en hér á Íslandi,“ sagði Unnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar