Vestfirðingar yfirtaka Bræðsluna: Mugison og Fjallabræður
Vestfirðingar verða svo fyrirferðamiklir á Bræðslunni í sumar að Borgfirðingar eru farnir að huga að því að styrkja sviðið. Mugion, Fjallabræður, Valgeir Guðjónsson og Contalgen Funeral eru aðalnúmerin í ár. Ekki er útilokað að fleiri listamenn bætist við.
„Við vildum endilega hafa sem flesta Vestfirðinga á sviðinu í ár og því fengum við til okkar fjölmennustu, karlmannlegustu, vestfirsku hljómsveitina sem er starfandi í dag. Það er sannur heiður að fá þá til okkar og eru menn strax farnir að plana styrkingar á sviðinu til að ráða við þennan fagra hóp,“ segir í tilkynningu Bræðslunnar um Fjallabræður.
Mugison og Valgeir Guðjónsson koma einnig fram á aðalkvöldi hátíðarinnar 28. júlí. „Það hefur verið stefnan í mörg ár að fá Mugison til okkar, en það hefur aldrei gengið fyrr en núna.“ Því er einnig bætt við að Valgeir hafi lengi verið á óskalistanum. Stuðmaðurinn og Seyðfirðingurinn hefur að undanförnu fagnað sextugsafmæli sínu með tónleikum og útgáfu safndisks.
Í morgun var einnig tilkynnt um fjórðu hljómsveitina sem er Contalgen Funeral, ungt og upprennandi band frá Sauðárkróki. Miðasala á Bræðsluna hefst 10. maí.
Í viðtali á Rás 2 skýrði Magni Bræðslustjóri frá því að dagskráin væri ekki tæmandi. Hann vildi ekki tjá sig um sögusagnir um að bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant kæmi fram á Bræðslunni. Þá hefur ekki gengið frá dagskrá annarra daga Bræðsluhelgarinnar nema að Magni & The Haftors leika á fimmtudagskvöldi.