![](/images/stories/news/2016/jolablot_solstoduhatid_asatru_0008_web.jpg)
„Við erum mikið jólafólk“
Ásatrúarmenn á Austurlandi héldu árlegt jólablót sitt við ferjustæðið í Fellabæ á vetrarsólstöðum. Þar er hinni rísandi sól fagnað á jólunum.„Við höldum hér jólablót á vetrarsólstöðum sem eru hin fornu jól heiðinna manna. Við fögnum hér fæðingu sólarinnar því sólargangur er nú stystur en lengist úr þessu.
Athöfnin er einföld. Við heldum stað og stund, förum með texta, drekkum vatn úr horni til heilla komandi kynslóðum og hinni eilífu hringrás sólarinnar,“ segir Baldur Pálsson, goði í Austurlandsgoðorði.
Jólablótið hefur verið haldið frá árinu 1995. „Það hefur aldrei fallið niður þótt veðrið hafi verið alls konar – allt frá því að vera blindbylur yfir í að vera ágætt eins og núna.“
Vel á annað hundrað manns eru skráðir í Ásatrúarfélagið á Austurlandi. Aðspurður svarar Baldur að jólahald þeirra sé lítt frábrugðið jólahaldi kristinna. Jólin eru ein af þeirra stærri hátíðum ásamt sigurblóti sem haldið er á sumardaginn fyrsta.
„Við erum mikið jólafólk og tökum þátt í gleðinni með öðrum trúfélögum. Okkar jól eru ekkert frábrugðin öðrum að öðru leyti en að þau eru lengri því við byrjum fyrr.
Trú okkar snýst um hina eilífu hringrás náttúrunnar. Allt sem lifir á sinn hring og nú er það hringrás sólarinnar sem er lægst í dag og fer svo hækkandi og því fögnum við.“