„Við þurfum að byrja upp á nýtt í útvarpinu“
„Markmiðið með námskeiðinu er að kynna miðlinn fyrir ungmennum á skapandi hátt og sýna þeim að hann er spennandi og ekkert síðri en sjónvarp,“ segir Sigyn Blöndal, sem kemur til með að stýra námskeiðum í dagskrárgerð fyrir útvarp fyrir austfirska kennara og ungmenni.
Í mars gefst austfirskum ungmennum á aldrinum 10-15 ára kostur á því að fara á námskeið sem miðar að því að vinna útvarpsefni fyrir Stundina Okkar á Rás 1. Það er Arnaldur Máni, ritstjóri Austurlands og verkefnastjóri Okkar eigin, sem stendur fyrir námskeiðunum. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands.
„Það er mikill áhugi fyrir að efla aðkomu krakka almennt að dagskrárgerð og það mælist vel fyrir eins og sést á innsendu efni til KrakkaRúv. Þetta er því klárlega eitthvað sem krakkar hafa áhuga á og því er eðlilegt að reyna bjóða upp á það í samstarfi við skólana – að krakkar læri vinnubrögðin, aðeins á tækin og hvernig sé hægt að vinna úr hugmynd þannig að hún verði að boðlegu efni.
Við eigum mikið af fólki í fjölmiðlum að austan, Andra á Flandri, Helga Seljan, Gunnu Dís og fleiri fyrirmyndir og eðlilegt að krakkar hafi áhuga á þessum starfsvettvangi. Því er um að gera að kynna sér hann á svona námskeiði,“ segir Arnaldur Máni.
Raddir ungmenna heyrast lítið í útvarpi
„Arnaldur Máni hafði samband við mig og ég sló til. Þetta veðrur örugglega rosalega gaman og vonandi góð mæting,“ sagði Sigyn Blöndal í samtali við Austurfrétt.
Sigyn er bæði umsjónarmaður Stundarinnar okkar á RÚV og stýrir einnig samnefndum útvarpsþætti á Rás 1. Hún lærði útvarpsþáttagerð í Bretlandi.
Aðspurð að því hvort ungmenni hafi áhuga á útvarpi nú þegar samfélagsmiðlar ráða ríkjum segir Sigyn;
„Videomiðlar eru vissulega ráðandi í þeirra lífi, en það er mikilvægt að við séum ekki að ákveða á hverju þau hafa áhuga og ekki. Það er lítið í boði í útvarpinu fyrir þennan aldursflokk og þeirra raddir heyrast lítið sem ekkert í þeim miðli – en þá er algerlega eðlilegt að áhuginn sé lítill. Við þurfum bara að byrja upp á nýtt í útvarpinu og virkja ímyndunaraflið gegnum hlustun. Fyrst og fremst er þetta frábært tækifæri til þess að raddir þeirra fái að heyrast.“
Námskeiðin verða í febrúar og mars
Í fréttatilkynningu segir að hugmyndin sé að hver grunnskóli sendi kennara á kynningarnámskeið þar sem verkefnið er útskýrt og þeir fái innsýn í þau tæknilegu atriði sem ráða þurfi yfir til að leiða nemendur áfram í að vinna efni fyrir útvarp. Í kjölfarið haldi hver kennari í sinn skóla, kynni verkefnið og miðli áfram þeim grunnatriðum sem þarf að hafa í huga og finni áhugasama nemendur sem hafa áhuga á að taka þátt.
Námskeiðin verða haldin í Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Kennaranámskeiðið verður dagana 11. og 18. febrúar, en fyrir nemendur dagana 4.-5.mars.
Frekari upplýsingar má nálgast hjá Arnaldi Mána í síma 822-8318 eða gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.