Við höfum trú á okkur

Verkmenntaskóli Austurlands komst í undanúrslit Gettu betur ásamt Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og Fjölbrautaskóla Suðurlands. VA mun mæta Fjölbrautaskóla Suðurlands í undanúrslitum og því ljóst að skóli af landsbyggðinni muni keppa til úrslita. VA mætir FSu þann 10. mars þar sem skólarnir keppa um sæti í úrslitum. Úrslitin munu fara fram í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

Lið VA skipa þau Ágústa Vala Viðarsdóttir og tvíburarnir Ragnar Þórólfur og Geir Sigurbjörn Ómarssynir. Ágústa Vala Viðarsdóttir er dóttir Viðars og Þórhöllu á Hofi í Norðfirði. Ágústa Vala segir gott að vera með tvíburunum í liði. „Sérsviðið mitt eru plöntur og fuglar,” segir Ágústa Vala.

Ragnar hefur verið í Gettu betur liði VA síðustu 2 ár og komst í sjónvarpið í fyrra. Þá var Geir varamaður í liðinu. Þetta árið eru þeir báðir í liðinu. Ragnar segir að það sé gaman að vera með Geir í liði. „Við höfum alltaf haft gaman af spurningaleikjum og getum hjálpað hvor öðrum að æfa heima, okkur finnst þetta bara skemmtilegt,” segir Ragnar.

Geir segir gott að vera með bróður sínum í liði. „Við þekkjum vel inn á hvorn annan og vitum hver okkar getur svarað hverju,” segir Geir. Geir segir sitt sérsvið líklega vera íþróttir en Ragnar segir sitt sérsvið klárlega vera landafræði.

Geir segir stemninguna í liðinu góða. „Það er góð stemning í liðinu fyrir undanúrslitunum og við höfum trú á okkur”.

Ingibjörg Þórðardóttir, kennari í VA og þjálfari liðsins, hvetur fólk til þess að búa til spurningar fyrir liðið. „Svo vil ég hvetja ykkur kæru Norðfirðingar og aðrir að búa til spurningar fyrir okkur. Við erum á fullu að æfa og tætum ansi hratt í okkur allt sem við komust í. Hraðaspurningar og þó sérstaklega bjölluspurningar eru vel þegnar."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar