Viðburðir víða yfir sjómannadagshelgina
Dagskrá helgarinnar litast af því að sjómannadagur er á sunnudag. Fyrir utan hefðbundnar skemmtanir á borð við siglingar og sjómannaleiki er tækifærið á nokkrum stöðum nýtt til stærra viðburðahalds. Austurfrétt lítur hér yfir helstu viðburði helgarinnar.Neskaupstaður
Þannig er staðan í Neskaupstað þar sem tónleikarnir Sjórokk verða haldnir í Egilsbúð á laugardagskvöld. Tónleikarnir eru um leið minningartónleikar um Ingvar Lundberg, fyrrum hljómborðsleikara Sú Ellen, sem lést síðasta sumar.
Hans gömlu félagar koma fram á tónleikunum ásamt Dúkkulísunum, Cell7, Guðmundi Höskuldssyni og hljómsveit með Þóri Baldurssyni, Pjetri St. Arasyni og Guðmundi R. Um morguninn verður farið í hópsiglingu norðfirska flotans klukkan tíu um morguninn og klukkan tvö er kappróður. Á sunnudag verða leikir við sundlaugina frá 15:30, kaffisala björgunarsveitarinnar Gerpis frá 14:30-18:00 að lokinni messu í Norðfjarðarkirkju.
Eskifjörður
Eskifirðingar byrjuðu hátíðahöldin í gær þegar hægt var að prófa báta hjá Siglingaklúbbi Austurlands og Björgunarsveitinni Brimrúnu. Þar verður hópsigling klukkan 13:00 á morgun með Jóni Kjartanssyni og Guðrúnu Þorkelsdóttur en eftir það leikir og þrautir á Mjóeyri. Milli klukkan 17 og 20 verða tónleikar á Eskitúninu þar sem fram koma KK, Gunni Óla, Páll Óskar og fleiri auk garðstónleika við hlið grunnskólans. Dansleikur er í Valhöll um kvöldið.
Á sunnudag verður messa í Eskifjarðarkirkju klukkan 11 en síðan athöfn við minnisvarðan um drukknaða sjómenn á hádegi. Sjómaður verður heiðraður og Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri flytur hátíðarræðu. Eftir hádegi er fjölskyldudagskrá á Eskjutúni með Sveppa og Villa en síðan kaffi í Valhöll á vegum slysavarnafélagsins.
Fáskrúðsfjörður
Á Fáskrúðsfirði verður lagt í skemmtisiglingu frá frystihúsbryggjunni klukkan tíu í fyrramálið. Að henni lokinni verður stutt athöfn inni við smábátahöfnina þar sem Sr. Jóna Kristín Þorvalsdóttir blessar björgunarbátinn Hafdísi. Báturinn verður síðan til sýnis. Á sunnudag klukkan 14 er messa í kirkjunni, minningarafhöfn við minnisvarðann um þá sem hafa látist við störf á hafi og síðan sjómannadagskaffi slysavarnadeildinni.
Vopnafjörður
Á Vopnafirði verður farið í siglingu klukkan 13:00 á morgun en síðan er skemmtidagskrá við höfnina á vegum björgunarsveitarinnar Vopna og þar á eftir samvera við fiskhúsið með humarsúpusmakki frá Brimi og fleiru. Sjómannadagsmessa er á sunnudag og eftir hana gengið að minnisvarðanum um drukknaða sjómenn. Hátíðarkaffi er síðan í Miklagarði í umsjón slysavarnadeildarinnar og félagar úr henni heiðraðir.
Borgarfjörður eystra
Á Borgarfirði er kótelettukvöld og sing-a-long í Fjarðarborg. Aðaldagskráin er þó á sunnudag og hefst klukkan 11 á sjómannadagsmessu úti í höfn. Eftir hana er boðið upp á siglingu um Borgarfjörðinn. Við komuna til baka verður belgjaslagur og stemming á bryggjunni en síðan sjómannadagskaffi í Fjarðarborg.
Djúpivogur
Á Djúpavogi verður klukkan 21:00 á morgun myndasýning í Löngubúð. Þar verða bæði ljós- og hreyfimyndir frá fyrri sjómannadögum á Djúpavogi. Myndasýningin verður í gangi á veitingastaðnum Vkið Voginn á sunnudag. Þann dag verður guðsþjónusta við Faktorshúsið klukkan ellefu, dorgveiðikeppni á hádegi og grillveisla. Ef veður leyfir verður siglt um svæðið klukkan 14.
Seyðisfjörður
Seyðfirðingar bjóða í siglingu með Gullveri í fyrramálið klukkan 11. Klukkan eitt verða viðburðir á og við bryggjuna svo sem dorgveiðikeppni og kappróður. Sjómannadagsmessan þar er klukkan 20:00 á sunnudag.
Tekið skal fram að upptalningin er ekki tæmandi á þeim viðburðum sem auglýstir hafa verið heldur samantekt á því helsta. Til viðbótar má nefna dansleiki og tilboð á veitinga- og skemmtistöðum sem víða standa fyrir sérstökum viðburðum. Ítarlegri dagskrá er að heimasíðum Múlaþings, Fjarðabyggðar og Vopnafjarðarhrepps.