Vígahnötturinn lýsti upp næturhimininn yfir Austfjörðum

Óvenjuskær vígahnöttur sást víða á norðurhimninum yfir landinu. Jónína G. Óskarsdóttir, ljósmyndari á Fáskrúðsfirði, var meðal þeirra sem sá hnöttinn en hún hafði farið út að mynda norðurljós sem einnig voru óvenju glæsileg.

„Fyrst hugsaði ég hvaða ljós þetta væri á himninum. Skömmu áður hafði ég séð flott stjörnuhrap í norður átt en þetta var allt annað. Vígahnötturinn var eins og kastari. Þegar ég sá umræðuna í morgun þá áttaði ég mig á hvað þetta hefði verið,“ segir Jónína.

Í viðtali við Mbl.is í morgun útskýrði Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, að um sé að lítinn stein á stæð við jarðarber eða hindber sem búinn sé að ferðast um himingeiminn í um 4.500 milljónir ára og hafi komið í námunda við jörðu í gærkvöldi og brunnið upp í 70-80 km hæð. Ljósið myndast þegar steinninn ryður frá sér lofti.

Óvenju glæsileg norðurljós í annað skiptið á árinu


Jónína fór út í gærkvöldi til að mynda norðurljósin því von var á sterkum ljósum. Þau urðu hins vegar mun öflugri en spáð var.

„Ég fór snemma út í gærkvöldi því ég vildi ná ákveðnum stað. Ég fór heim með hálfum huga um klukkan hálf tvö í nótt. Þá logaði enn allt en ljósin voru orðin grænni. Fram að þeim tíma voru alla vega lit ljós, meðal annars út í bleikt, á himninum.

Þann 26. febrúar voru líka svona glæsileg ljós. Þá efaðist ég um að ég sæi annað slíkt sjónarspil næstu tíu árin.

Ég held ég að ég hafi tekið um 600 myndir. Á tímabili vissi ég ekkert í hvaða átt ég ætti að snúa mér. Ég er með bullandi valkvíða fyrir að fara í gegnum þær.“

Öflug norðurljós í kringum jafndægur


Jónína er með fjölda fylgjenda á Facebook undir heitinu Icelandic Queen of Aurora Borealis og hafa myndir hennar birst víða erlendis, meðal annars hjá NASA. Ein af myndum hennar frá í nótt prýðir nú forsíðu SpaceWeather.com. Þar segir að að mun öflugri segulstormur hafi lent á jörðinni í gærkvöldi heldur en spár hafi gert ráð fyrir sem hafi framkallað sterk norðurljós á norðurslóðum.

Jónína segir haustin oft góð til að fylgjast með norðurljósunum. „Þá er oft þægilegra að vera úti og ekki kominn snjór þannig hægt er að fara um allt. Mér finnst oft góð ljós í kringum jafndægur að hausti og voru (um það bil 20. september og 20. mars). Þá virðist eitthvað kveikja á ljósunum þannig þau verða öflugri en spáð er. Október og mars eru mínir uppáhaldsmánuðir.“

Jónína segist aldrei finna fyrir þreytu daginn eftir þótt hún sé lengi úti að fylgjast með ljósunum. „Þetta var æðislegt í gærkvöldi, eintóm gleði.“

Vígahnötturinn frá Fáskrúðsfirði. Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.