Vilja endurheimta virðingu lundans

Fyrsta lundabúð landsins, þar sem varningurinn er framleiddur innan um fyrirmyndina, verður opnuð á Borgarfirði eystra í dag. Verslunareigendurnir segjast vilja endurheimta virðingu lundans sem fengið hafi neikvætt umtal síðustu ár.

„Við erum að hugsa um samband okkar við lundann. Hann hefur fengið neikvætt umtal í tengslum við lundabúðirnar, orðið táknmynd fyrir það sem fjöldaframleitt og kapítalískt.

Við reynum að endurheimta tengslin við hann og stöðu hans með að opna Nýlundabúðina, innsetningu í fuglaskoðunarhúsinu í Hafnarhólma,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir.

Elín er annar helmingur Teikniþjónustunnar Jafnóðum sem stendur að baki Nýlundabúðinni sem opnar í fuglaskoðunarhúsinu í Hafnarhólma á Borgarfirði klukkan fimm í dag. Vegna smitvarna er engum boðið á opnunina, þar sem bæði verða fluttar ræður og klippt á borða, en henni verður í staðinn streymt á Instagram og Facebook.

Elín er Borgfirðingum að góðu kunn eftir að hafa verið þar reglulega við störf síðustu níu ár. Á móti henni er Rán Flygering sem er ekki óvön því að teikna fugla en hún fékk verðlaun fyrir myndskreytingu í bókinni Fuglar sem hún gaf út árið 2017 ásamt Hjörleifi Hjartarsyni.

Hugmynd þeirra var að hafa opna vinnustofu á Borgarfirði en þau áform takmarkast nú af því að gestir geta aðeins horft inn um glugga fuglaskoðunarhússins. „Við erum í vöruþróun að búa til lundatengda muni. Við vitum ekki hvort þeir verði síðar til sölu, þetta snýst um ferlið. Okkur skilst að þetta sé eina lundabúð landsins þar sem söluvarningurinn er framleiddur innan um lundann.“

Elín og Rán verða á Borgarfirði til 16. ágúst, eða út næstu viku. Óvíst er að lundinn verði jafn lengi en hann fer alla jafna af landinu um þetta leyti. „Þetta er bæði opnunarhátíð og kveðjuhóf. Hann er að fara þessa dagana. Við sjáum alltaf færri og færri.“

Elín Elísabet segist finna mun á stöðu lundans í miðborg Reykjavíkur og í Hafnarhólmanum. „Eftir að hafa búið í Reykjavík í 13 og fylgst með lundabúðunum spretta upp sér maður hvernig þetta verður alltaf einhæfara og einhæfara. Síðan kemur maður hér í Hafnarhólmann þar sem þessi fíni fugl vær að vera til á sínum eigin forsendum og gleymir því öllu.“

Mynd: Sebastian Ziegler

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.