Vilja koma klettaklifri á kortið austanlands

Þær kallast El Grillo og Norræna, staðsettar á Seyðisfirði en eiga ekkert skylt við þau skip sem flestir tengja þessum nöfnum. Þetta eru klettaklifurleiðir.

Tveir vaskir félagar, þeir Einar Sveinn Jónsson og Jafet Bjarkar Björnsson, hafa undanfarnar vikur komið upp tveimur fyrstu boltuðu klettaklifursleiðum í hömrunum skammt frá Seyðisfirði. Nánar tiltekið í Arnarklettum rétt innan við Vestdalseyri. Þriðja klifurleiðin þar skammt frá er í undirbúningi.

Þar gefst áhugasömum klettaklifrurum nú færi á að prófa sig gegn náttúrunni en þó mælir Jafet Bjarkar með því að byrjendur hafi vanan klifrara með sér til að byrja með.

„Það eru þessar tvær leiðir komnar í gagnið og við reyndar nýbúnir að setja þær upp. Þær flokkast báðar sem svokallaðar 6B leiðir meðal klifrara sem merkir að þær eru nokkuð krefjandi og þó öllum sé frjálst að reyna sig er betra að hafa einn vanan með sér svona fyrstu skrefin allavega.“

Þeir félagar brenna nokkuð fyrir að koma klettaklifri á kortið austanlands og hafa flakkað aðeins um fjórðunginn í sumar í leit að hentugum og aðgengilegum klifurstöðum.

„Við erum búnir að finna ágætan stað í Mjóafirði og á Reyðarfirði sömuleiðis og hver veit nema við setjum eitthvað upp þar í framtíðinni ef leyfi fást. Reyndar fundum við fyrir tilviljun boltaða leið í Reyðafirðinum svo það eru greinilega fleiri en við sem áhuga höfum á þessu sporti.“

Jafet Bjarkar hefur sett upp sína eigin klifursíðu, klifur.is, þar sem finna má ýmsar upplýsingar um hinar ýmsu klifurleiðir og þar á meðal ítarlegar upplýsingar um nýju leiðirnar tvær í Seyðisfirði.

Klettaklifur er vaxandi sport hérlendis sem erlendis. Nú geta áhugasamir Austfirðingar prófað sig á tveimur mismunandi stöðum í Seyðisfirði. Mynd Jafet Bjarkar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.