Vinabæjamót hefst á morgun
Á föstudag hefst vinabæjamót Egilsstaða og fjögurra bæja á hinum Norðurlöndunum og stendur mótið á Fljótsdalshéraði fram til 28. júní. Vinabæir Egilsstaða eru Sorö í Danmörku, Skara í Svíþjóð, Eidsvoll í Noregi og Suolahti í Finnlandi. Gestirnir koma kl. 12 á föstudag með flugi og formleg móttaka hefst kl. 17.
Átta koma frá Noregi, fimm frá Danmörku, þrír frá Svíþjóð og tveir frá Finnlandi, samkvæmt upplýsingum frá Karen Erlu Erlingsdóttur hjá Fljótsdalshéraði.
Á laugardagsmorgun geta gestirnir valið um hvort þeir heimsækja Íþróttamiðstöðina og hreyfa sig svolítið, heimsækja Minjasafnið, fara í göngu um Selskóg með leiðsögumanni eða skoða Fljótsdalsstöð, svo eitthvað sé nefnt. Fundað verður hjá Þekkingarneti Austurlands eftir hádegi og síðdegis farið í Hallormsstaðarskóg og snæddur kvöldverður í Hússtjórnarskólanum.
Snemma á sunnudag er skipulögð heimsókn í Sláturhúsið, menningarhús Fljótsdalshéraðs og m.a. skoðuð sýningin Testosterone sem vakið hefur mikla athygli, auk hönnunar, handverks og ýmissa verkefna sem gott þykir að sýna gestunum áður en þeir halda á brott aftur.
Mynd: Suolahti í Finnlandi.