Völdu hamborgarhrygginn því ekki var hægt að selja pizzu með rjúpu
Veitingastaðurinn Askur á Egilsstöðum setti í byrjun desember á matseðil tvær sérstakar jólapizzur. Önnur er með hamborgarhrygg og gljáðum ananas en hin með lakkrístoppi. Rekstrarstjóri staðarins segir starfsfólkið hafa lagst í mikla tilraunir við þróun pizzanna.„Við vorum með hreindýrapizzu fyrir jólin í fyrra en vildum ekki endurtaka okkur þannig við lögðumst í mikla rannsóknavinnu á íslenskum jólamat. Við það duttum við niður á hamborgarhrygginn.
Með hryggnum á myndum er gjarnan ananas, þannig okkur datt í hug að búa til Hawaii-jólapizzu. Við gengum svo skrefinu lengra með að gljáa hann. Þetta virtist enn frekar einfalt þannig við bættum við valhnetum,“ segir Ricardo Granger, rekstrarstjóri Asks pizzeria. Þá er ótalið camenbert-ostur og hvítlauksmauk.
Hann segir að ýmsar hugmyndir hafi komið upp á leiðinni. „Okkur langaði mikið að nota rjúpu en það er bannað að selja íslenskrar rjúpnaafurðar þannig það var ekki hægt. Við hefðum getað notað hangikjöt en annar pizzastaður var búinn að því. Við skoðuðum líka brúnaðar kartöflur en leist heldur ekki á það. Við gerðum líka ýmsar tilraunir með meðlæti með hamborgarhryggnum en fannst þessi samsetning best,“ segir Ricardo.
Fólk alltaf til í að prófa nýjar áleggstegundir
Starfsfólkið lét ekki þar með staðar numið heldur bætti við eftirréttapizzu með nutella, þeyttum rjóma og lakkrístoppu. „Mér finnst lakkrís alls ekki góður en þetta lukkaðist mjög vel. Sennilega er þetta besta eftirréttapizzan okkar. Súkkulaði og lakkrís eiga vel saman,“ segir Ricardo.
Pizzurnar hafa fengið ágætar viðtökur þá daga sem þær hafa verið á matseðli. „Fólk er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Síðan eigum við eftir að sjá hvort fólk panti þær aftur. Þessa dagana eru flestar pizzur sem pantaðar hjá okkur sóttar þannig við náum ekki sama beina sambandinu við viðskiptavinina og þegar þeir borða í salnum. En það eru stórir dagar framundan. Föstudagar eru alltaf pizzadagar hérna og síðan er mikið pantað á Þorláksmessu.“
Ekkert útilokað í jólapizzum
Hann segir að pizzurnar verði á matseðlinum að minnsta kosti til áramóta. „Ég myndi gjarnan hafa eftirréttapizzuna enn lengur en þá þurfum við að búa til okkar eigin lakkrístoppa. Kannski verðum við komin með lakkríspizzu fyrir næsta sumar.“
Miðað við upptalningu Ricardos er erfitt að sjá hvaða nýju hugmyndir verði hristar fram úr erminni á Aski fyrir jólin 2025 – en ekkert er útilokað. „Ég vona að íslenska ríkið leyfi sölu á rjúpu. Síðan getur verið að við gögnum endanlega af göflunum og setjum skötu á pizzurnar. Það er aldrei að vita.“
Nikoleta Markopolou hjá Aski með jólapizzurnar.