Von á tveggja stafa tölum um helgina

Veðurstofan spáir mildu vorveðri um helgina sem verður líklega best á Vopnafirði. Sunnar á svæðinu og út við ströndina verður svalara og líkur á skúrum.

Hlýjast á svæðinu í dag verður væntanlega á Vopnafirði þar sem búist er við 12-13 stiga hita eftir hádegið miðað við spá Veðurstofunnar. Um leið hlýnar. Á Héraði gæti hitinn einnig farið yfir 10 stig en við ströndina verður svalara og jafnvel skúrir syðst.

Á morgun er spáð sólskini og aftur meira en tíu stiga hita um stóran hluta svæðisins, aftur verður hlýjast á Vonafirði og Héraði en heldur svalara á fjörðunum, einkum syðst. Þá er von á skúrum þegar líður að kvöldi.

Svipaða sögu virðist vera að segja af veðrinu á sunnudag og mánudag, yfir 10 stig á norðurhluta svæðisins, einkum inn til landsins, en svalara og líkur á skúrum út við ströndina, einkum að sunnanverðu. Von er á rigningu um allt svæðið þegar líða tekur á mánudag.

Af viðburðum helgarinnar má nefna að Hallormsstaðarskóli býður til opins húss milli 13-15 á morgun þar sem nemendur sýna verkefni sín frá vetrinum. Aðalfundur Hinsegin Austurlands verður í fjarfundi kl. 14 á morgun og um kvöldið mætir Jónsi, sem kenndur var við svört föt, á Tehúsið með gítarinn.

Á sunnudagskvöld verður kyrrðar- og gospelstund í Norðfjarðarkirkju þar sem Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, tónlistarmeðferðarfræðingur, flytur erindi um áhrif tónlistar á fólk. Í Blábjörgum á Borgarfirði er heilsu- og vellíðunarhelgi sem hefst í dag og lýkur á sunnudag.

Í Skaftfelli á Seyðisfirði opnar á morgun sumarsýningin, The Arctic Creatures Revisited. Hún inniheldur kostulegar ljósmyndir af gönguferðum Stefáns Jónssonar leikara, Óskars Jónassonar leikstjóra og Hrafnkels Sigurðssonar, myndlistarmanns ársins 2023, um Austfirði og Vestfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.