Vopnafjörður á lista yfir faldar perlur
Vopnafjörður er meðal þeirra staða sem alþjóðleg ferðatímarit mælir með sem földum perlum árið 2024.Listinn inniheldur tíu staði sem tækifæri er til að heimsækja í ár, áður en fjöldinn uppgjötvar þá. Listanum er haldið úti af Matador Network, sem kynnt er sem stærsti sjálfstæði útgefandinn á sviði ferðaþjónustu með átta milljónir notenda í hverjum mánuði.
Vopnafjörður er þar efstur á blaði. Rakið er að þótt 1,5 milljón ferðamanna hafi komið til Íslands í fyrra finnist enn staðir utan alfaraleiðar. Vopnafjörður sé einn þeirra.
Þar búi innan við 700 íbúar sem flestir byggi afkomu sína á landbúnaði og fiskveiðum. Það séu hins vegar hvorki búfénaðurinn né fiskarnir sem laði til sín gestina heldur einstakt landslag þar sem fáir séu á ferli.
Lýst er hvernig stór og svört sandfjara sé að baki flugvellinum. Yfir þetta tvennt megi fá frábært útsýni með tveggja tíma fjallgöngu úr bænum. Á leiðinni megi sjá fugla, jurtir og fleira.
Mælt er við að koma við í Vopnafjarðarkirkju og kíkja upp á loftið til að sjá orgelið í umhverfi sem sé dæmigert fyrir norrænar kirkjubyggingar. Einnig er mælt með Selárdalslaug, Minjasafninu á Bustarfelli, hákarlahjöllum og svæðinu í kringum vitann á Kolbeinstanga.
Að auki eru á listanum Teahupo'o á Tahíti, Færeyjar, Paraca í Perú, Cavta í Króatíu, Bacalar í Mexíkó, Fukuoka í Japan, Assam á Indlandi, Osa á Kosta Ríka og Kerrville í Texas í Bandaríkjunum.