Vopnfirðingar fagna með Bakkfirðingum um helgina

Hátíðin Bakkafest er að vaxa út frá Bakkafirði því hún hefst í kvöld á Vopnafirði. Stjórnandi hennar segir markmiðið að færa áfram út kvíarnar og byggja upp útihátíð fyrir Norðausturhornið.

„Við fórum af stað með hátíðina fyrir þremur árum og höfum verið að stækka hana og gera fjölbreyttari.

Við erum að teygja okkur meira út frá Bakkafirði og sömdum við Uss Bistro á Vopnafirði sem ætlar að byrja helgina með barsvari þannig þetta verður þriggja daga hátíð.

Markmiðið í framhaldinu er að stækka hátíðina enn frekar og fjölga viðburðum á Þórshöfn og Vopnafirði. Við viljum hrista íbúana á þessum stöðum meira saman því þetta á að vera eitt samfélag. Við viljum gera Bakkafest að alvöru útihátíð fyrir Norðausturhornið,“ segir Þórir Örn Jónsson, sem leiðir Bakkafest.

Hann segir að til þessa hafi Vopnfirðingar tekið vel í Bakkafest. „Við finnum mikinn stuðning þaðan, fleiri tugir Vopnfirðinga hafa mætt á hátíðina.“

Aðrir dagskrárliðir helgarinnar verða á Bakkafirði og af þeim ber helst að nefna tónlistardagskrá bæði föstudags- og laugardagskvöld. Meðal þeirra sem fram koma á laugardag eru Steini Bjarka, trúbador frá Vopnafirði sem verður með Rúnari Eff.

Um daginn verður vígt sjósundskýli að Felli í Finnafirði auk þess sem opið verður í Vigtarskúrnum. „Við rekum fiskvinnslu á Bakkafirði. Þar við er gamall vigtarpallur og við höfum gert skýli yfir hann. Þar inni eru myndir og fróðleikur um lífið við höfnina á Bakkafirði í gamla daga.“

Bakkfirðingar eru duglegir að gera sér glaðan dag um þessar mundir því hátíðin Grásleppan var haldin þar í fyrsta sinn um sjómannadagshelgina. „Það er miklu landað af grásleppu á Bakkafirði. Síðustu 2-3 ár hefur heimsmarkaðsverðið verið lágt og bara verkuð hrogn.

Við viljum nýta skrokkinn betur og gera meiri verðmæti úr fiskinum. Það er til mikils að vinna en til þess þarf vélar og tæki. Á hátíðinni buðum við meðal annars upp á fiskibollur og reykt flök. Kokkurinn sem vann með okkur bauð upp á gráleppu á veitingastað í Reykjavík um daginn sem sló í gegn þannig vonandi er þessi hátíð komin til að vera.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.