Vopnin kvödd fyrir utan dómsal

Hvers konar vopnaburður er óheimill í dómsal, líka á öskudaginn. Dómritari fór yfir reglurnar með þeim börnum sem komu í Héraðsdóm Austurlands í dag, áður en þau komu fyrir dómara til að syngja.

„Þetta er gamall siður og skemmtilegur og börnin hafa gaman af þessu. Þau syngja og það er úrskurðað.

Þau fá sælgæti ef þau syngja vel, annars ekkert. Það hefur ekki enn gerst að þau syngi illa þannig héðan hafa allir farið út með sælgæti,“ segir Ólafur Ólafsson, dómstjóri Héraðsdóms Austurlands.

Á Egilsstöðum fara börn um á öskudaginn og syngja í fyrirtækjum og stofnunum en fá sælgæti að launum. Héraðsdómur deilir húsnæði með sýslumannsembættinu og lögreglunni og þangað koma börnin líka.

„Ég lít svo á að þetta sé líka smá kynning um dómstólinn sem hefur dómsal sem að mínu viti er mjög fallegur á landsvísu. Að þau sjái ekki bara dómsal í bíómyndum heldur líka í rauninni.“

Reglur virtar í dómsal


Eydís Eyþórsdóttir, dómritari, stýrði umferðinni inn í dómsalinn í dag. Hún fór yfir reglurnar sem gilda þar, meðal annars er hvers kyns vopnaburður bannaður. Þess vegna þurftu sumar verurnar að skilja byssur og sverð sín eftir fyrir utan.

„Það eru strangar kröfur um að allur vopnaburður í dómsal er bannaður. Dómritari er því hér fyrir utan og afvopnar krakkana. Það hefur gengið vandræðalaust,“ útskýrir Ólafur.

„Í salnum gilda þingreglur og ákveðin uppröðun. Krakkarnir standa við púltið þar sem lögmennirnir halda sínar ræður. Það kemur bara einn hópur inn í einu þannig þau fá frið til að syngja.“

Dómarinn situr svo í sæti sínu, íklæddur skikkjunni og úrskurðar með að berja dómhamrinum í borð sitt þegar söng er lokið. „Ég er náttúrulega í hefðbundinni dómaraskikkju, eða Batman-skikkjunni eins og hún kallast á öskudaginn,“ segir Ólafur að lokum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar