Yfir 70% áhorf á Að austan
Sjónvarpsþátturinn Að austan mælist með 72% áhorf í fjórðungnum í nýrri könnun. Samkvæmt henni horfa 15% landsmanna á þáttinn í hverri viku.
Það var Zenter sem gerði könnunina fyrir N4 sem sýnir þættina en þeir eru framleiddir af Austurfrétt/Austurglugganum.
Alls svöruðu 1200 manns af öllu landinu könnuninni. Þar reyndist Að austan næst vinsælasti þáttur stöðvarinnar, á eftir Að norðan en spurt var hvaða þátt áhorfendur hefðu séð síðastliðna sjö daga.
Karlar horfa frekar á Að austan en konur og áhorfið er meira meðal þeirra sem eru eldri en 45 ára heldur en yngri. Samkvæmt könnuninni horfa 22% íbúa landsbyggðarinnar á þáttinn en 11% íbúa höfuðborgarsvæðisins.