Í síðustu viku voru Andrésarleikarnir haldnir á Akureyri í þrítugasta og fjórða skiptið.Að þessu sinni voru 792 keppendur skráðir til leiks og þar af komu 69 keppendur frá Fjarðabyggð. Fjarðabyggðarkrakkarnir vöktu sérstaka athygli því þeir röðuðu sér á glæsilegan máta upp í skrúðgöngu sem var hluti setningarhafhöfn leikanna.Allir krakkarnir voru með Fjarðabyggðarbuff á höfðinu þannig að það fór ekki milli mála hvaðan þau komu. Var það mál manna að þarna hefði komið til leikanna einkar föngulegur og prúðmannlegur hópur.
Sjávarútvegsráðherra ákveð í gær að lengja veiðitíma grásleppu um viku og verður þannig við beiðni Landssambands smábátaeigenda. Verð á grásleppuhrognum er í sögulegu hámarki. Grásleppuveiðar voru heimilaðar í fimmtíu og fimm daga en það hefur nú verið lengt í sextíu og tvo daga, sem gefur grásleppukörlum aukið svigrúm til veiðanna.
Tuttugu og tvær górillur sluppu úr dýragarði Verkmenntaskóla Austurlands í nótt og leika nú lausum hala um Neskaupstað. Samkvæmt upplýsingum innan úr VA liggur fyrir að menn þar á bæ unni sér ekki hvíldar fyrr en þær hafa allar verið fangaðar er líður á daginn. Hætt er við að einhverjar furðuverur sjáist líka á götum Egilsstaða. Eins og ljóst má vera af þessum fréttaflutningi eru bæði Verkmenntaskóli Austurlands og Menntaskólinn á Egilsstöðum að dimmitera í dag með tilheyrandi gleðilátum.
Lokahátíðir Stóru upplestrakeppninnar fóru fram í Neskaupstað og á Seyðisfirði 22. apríl síðastliðinn. Auk upplestranna voru skemmtiatriði. Í Nesskóla lásu þrettán þátttakendur frá Breiðdalsvík, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði, Eskifirði, Neskaupstað og Eskifirði. María Von Pálsdóttir í Grunnskóla Breiðdalsvíkur sigraði með sínum lestri og í öðru sæti varð Iveta Krasimirova Kostova frá Nesskóla og í því þriðja Almar Blær Sigurjónsson, Grunnskóla Reyðarfjarðar. Á Seyðisfirði tóku fjórtán þátttakendur frá sjö skólum þátt. Í fyrsta sæti varð Glúmur Björnsson, Egilsstaðaskóla, í öðru sæti Sveinn Hugi Jökulsson, Grunnskóla Borgarfjarðar og í þriðja sæti Heiðdís Sigurjónsdóttir í Egilsstaðaskóla.
Í kvöld verður í Egilsbúð í Neskaupstað efnt til útgáfuhófs vegna útkomu bókarinnar Norðfjarðarsaga II, eftir Smára Geirsson. Jafnframt verður 80 ára afmælis kaupstaðarréttinda bæjarins minnst. Lesið verður úr hinni nýju bók og tónlistarskólinn býður upp á tónlistaratriði. Bók og veitingar seldar á staðnum. Hátíðin hefst kl. 20:30 og eru allir velkomnir.
Margt ber á góma í Austurglugganum að vanda. Velt er vöngum yfir 1. maí, baráttudegi verkalýðsins, og staðan tekin á Austurlandi hjá formönnum verkalýðsfélaganna. Auk ýmissa frétta úr fjórðungnum er svo farið yfir úrslit kosninganna. Við hvílum matgæðinginn þessa vikuna, en í næstu viku fáum við uppskriftir frá nýjum þingmanni Austfirðinga; Jónínu Rós Guðmundsdóttur.
Hafin er undirskriftasöfnun á Eskifirði þar sem skorað er á yfirstjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands að segja af sér. Ástæðan er reiði íbúa yfir þeirri ákvörðun stofnunarinnar að fá lögreglu og í kjölfarið ríkissaksóknara til að rannsaka embættisfærslu yfirlæknis Heilsugæslu Fjarðabyggðar, en íbúar telja meintar ávirðingar læknisins úr lausu lofti gripnar af HSA. Lögreglan á Eskifirði og ríkissaksóknari hafa sem kunnugt er fallið frá rannsókn. Íbúarnir vilja nú að stjórnendur HSA axli ábyrgð.