Öruggir sigrar í blakinu: Borgar sig varla að fara suður fyrir bara sex hrinur
Karlalið Þróttar gerði góða ferð til Reykjavíkur um helgina og vann Þrótt Reykjavík tvisvar 0-3. Þjálfari liðsins segist ánægður með leiki helgarinnar. Norðfjarðarliðið hafði góð tök á Reykjavíkurliðinu í báðum leikjunum.Fyrri leikurinn var á föstudagskvöld og þann leik vann Þróttur 22-25, 23-25 og 18-25. Valgeir Valgeirsson var þar stigahæstur með 14 stig en þjálfarinn Hlöðver Hlöðversson skoraði tíu.
„Við mættum vel stemmdir í leikinn á föstudagskvöldinu. Við gerðum andstæðingum okkar erfitt fyrir með þéttum uppgjöfum og ágætis sóknarleik úr öllum stöðum og fínum varnarleik og blokkum," sagði Hlöðver í samtali við Austurfrétt eftir helgina.
„Við höfðum yfirhöndina allan tímann nema um miðbik annarrar hrinu þegar Reykjavíkurliðið seig fram úr. Því var kippt hið snarasta í liðinn."
Liðin mættust aftur í hádeginu á laugardag. Þróttur þjarmaði þá enn frekar að Reykjavíkurliðinu og vann 14-25, 15-25 og 17-25. Valgeir var aftur stigahæstur með fjórtán sig en Matthías Haraldsson átti mjög góðan dag, einkum í vörninni.
„Við vorum enn fastari fyrir og löguðum það sem betur mátti fara. Við unnum vel saman allan leikinn og það mátti heyra að hjörtun slógu í einum takt og þegar Reykjavíkurliðið saxaði á forskotið var öllu skellt í lás.
Eftir þessa tvo góðu útisigra ræddum við í liðinu að það tæki því varla að fara svona suður og spila „bara" sex hrinur."
Þróttur er í þriðja sæti Mikasa-deildar karla með 24 stig eftir 12 leiki, tveimur stigum á eftir Stjörnunni sem er í öðru sæti og sex frá HK sem er efst.