15% meðalhækkun fasteigna á Austurlandi

Fasteignamat á Austurlandi hækkar að meðaltali um 15% á næsta ári. Mest er meðalhækkunin á svæðinu í Múlaþingi. Mesta hækkun á íbúðum á landsvísu er í Fljótsdal.

Þjóðskrá Íslands gaf út fasteignamat fyrir árið 2023 í vikunni. Meðalhækkunin á Austurlandi er 14,9%. Mest er hún í Múlaþingi, 19,1%, 13,3% í Fjarðabyggð, 11,5% á Vopnafirði og 10,5% í Fljótsdal.

Í yfirliti Þjóðskrár kemur hins vegar fram að fasteignamat íbúða hækki hvergi meira á landsvísu en í Fljótsdal, 38,9%. Á landsvísu er meðalhækkunin 19,9%, 19,2% á landsbyggðinni en yfir 20% á höfuðborgarsvæðinu.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum sem safnað er úr fasteignaskrám fyrir þær eignir sem kaupsamningar fjalla um. Ævar Dungal, fasteignasali á Egilsstöðum, bendir á að hækkunin á Austurlandi endurspegli mikla eftirspurn eftir húsnæði á svæðinu sem hækkað hafi fasteignaverðið.

Þegar öllu sé á botninn hvolft þýði hækkunin fyrst og fremst auknar álögur á húseigendur, sem hækkað hafi töluvert síðustu ár í takt við hækkandi fasteignamat.

Aðspurður um hvort hann búist við að einhverjir reyni að endurfjármagna eldri lán við nýtt mat svarar Ævar að svo sé viðbúið en bætir við að misjafnt virðist eftir lánastofnunum hvenær þær fari að miða við nýtt fasteignamat. Þegar hafi borist erindi frá einni slíkri þar sem gagngert er tekið fram að hún miði ekki enn við mat ársins 2023 í sínum lánatilboðum.

Þá hefur eftir vaxtahækkanir síðastliðins árs færst í vöxt að fólk leyti eftir að taka lán með sér eða yfirtaka eldri lán við kaup á fasteignum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar