Þróttur vann HK: Leikurinn varð óþarflega spennandi

blak throttur hk meistarar 06042013 0206 webÞróttur er kominn yfir í baráttunni við HK í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki eftir 3-2 sigur í æsilegum leik í Neskaupstað í kvöld. Þjálfari Þróttar segist þakklátur fyrir breiddina í leikmannahópnum.

Þróttur tók forustuna strax í byrjun og vann fyrstu tvær hrinurnar 25-18 og 25-23. „Leikurinn spilaðist vel framan af og við stjórnuðum þessum fyrstu tveimur hrinum alveg. Við höfum yfirburði í þeim þótt HK kæmust nálægt okkur í lokin," segir Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar.

Dæmið snérist alveg við í næstu tveimur hrinum sem HK vann 22-25 og 14-25. „Annars vegar fer HK að spila eins vel og þær geta og hins vegar gerist eitthvað í hausnum á okkur. Við verðum varkárar og eins og við óttumst að tapa."

Hausinn skrúfaðist aftur á Þróttarstelpur og þær höfðu undirtökin í oddahrinunni. „Þær jöfnuðu reyndar í 10-10 en við kláruðum þetta með góðum uppgjöfum."

Í samtali við Austurfrétt eftir leikinn í kvöld sagði Matthías að leikurinn hefði orðið „óþarflega spennandi eftir að við vorum 2-0 yfir. Það voru miklar sveiflur í leiknum en það gerir sigurinn þeim mun sætari."

Hann hrósaði sérstaklega Þórunni Egilsdóttur sem spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Þrótt í kvöld. Hún tók stöðu Maríu Karlsdóttur sem var með magapest.

„Þetta er ekki auðveldasti leikurinn til að vera í fyrsta skipti í byrjunarliði en Þórunn stóð sig frábærlega," sagði Matthías en María Rún kom inn á undir lokin.

Hann kveðst þakklátur áhorfendum fyrir stuðninginn en vonast eftir enn fleiri í salinn látum í úrslitarimmunni.

Liðin mætast aftur í Kópavogi á fimmtudagskvöld og er stefnan sett á að gera út um rimmuna þar. Gangi það ekki eftir mætast liðin í oddaleik í Neskaupstað eftir viku. „Við spilum yfirleitt vel í Fagralundi og ætlum okkur að klára rimmuna þar."

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir skoraði 20 stig fyrir Þrótt og Erla Rán Eiríksdóttir 12. Í liði HK skoraði Elísabet Einarsdóttir 20 stig og Karen Björg Gunnarsdóttir ellefu.

Annað kvöld tekur Þróttur á móti Stjörnunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla. Þróttur vann fyrri leikinn og getur tryggt sig í úrslitin með sigri á heimavelli. Leikurinn hefst klukkan 19:30.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.