Knattspyrna: Fjarðabyggð tapaði ósanngjarnt - Leiknir á sigurbraut

fotbolti einherji leiknir 15082014 0133 web
Nóg var um að vera í austfirskri knattspyrnu um helgina. Huginn og Höttur mættust á Fellavelli á föstudag og þeim leik lauk með verðskuldum 1-0 sigri Seyðfirðinga. Nánar um það hér.

Fjarðabyggð og KA mættust í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði á laugardag í annarri umferð 1. deildar karla. Leikurinn var jafn og skemmtilegur, en því miður fyrir Fjarðabyggð náðu KA-menn að skora eina mark leikins í uppbótartíma.

Fjarðabyggð voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og fengu nokkur góð færi til að komast yfir í fyrri hálfleik. Það besta féll fyrir fætur bakvarðarins Andra Þórs Magnússonar, en þá galopnaðist vörn KA-manna eftir snarpa sókn Fjarðabyggðar upp hægri kantinn. Fast skot Andra fór þó yfir markið. Brynjar Jónasson kom sér í góða skotstöðu utarlega í teignum skömmu seinna, en táarskot hans fór í hliðarnetið.

Eftir þessa góðu byrjun Fjarðabyggðar jafnaðist leikurinn töluvert og KA-menn sóttu í sig veðrið. Þeir voru skammt frá því að komast yfir á seinustu andartökum fyrri hálfleiks þegar Elfar Árni Aðalsteinsson komst í gegn og náði að lyfta boltanum yfir Kile Kennedy í marki Fjarðabyggðar, sem var kominn langt út á móti. Boltinn fór þó naumlega framhjá.

Seinni hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu og lið Fjarðabyggðar náði ekki að skapa sér nein teljandi opin færi. Þeir fengu þó aukaspyrnu á góðum stað eftir um það bil 60. mínútna leik en ágæt spyrna Viktors Arnar fór yfir markið. KA-menn byrjuðu að pressa meira á Fjarðabyggð og tóku yfirhöndina í leiknum eftir því sem leið á.

Sveinn Fannar Sæmundsson fékk að líta gula spjaldið þegar hann stoppaði sóknarmann KA, sem var að sleppa í gegn. Liðsmenn KA og stuðningsmenn þeirra, sem voru háværir og vel hressir, vildu sjá Svein fjúka út af, en Valgeir Valgeirsson dómari leiksins mat það svo að hann hefði ekki verið aftasti varnarmaður.

Aukaspyrna Juraj Grizelj í kjölfar þessa atviks fór naumlega framhjá markinu, en í gegnum gat á hliðarnetinu og stuðningsmenn KA fögnuðu marki, en fögnuður þeirra breyttist fljótt í vonbrigði. Netið var hnýtt fast við markrammann og leik haldið áfram.

Á lokakafla leiksins lágu KA-menn nokkuð þétt á liði Fjarðabyggðar og fengu þónokkrar hornspyrnur. Þeir náðu þó ekki að skapa sér nein opin færi og leiknum virtist ætla að ljúka með sanngjörnu jafntefli, sem bæði lið hefðu eflaust sætt sig við.

Á annarri mínútu uppbótartíma kom þó eina mark leiksins. Þá fengu KA-menn hornspyrnu og Húsvíkingurinn öflugi Elfar Árni stangaði knöttinn niður í vinstra markhornið. Grátlegur endir á leiknum fyrir lið Fjarðabyggðar, sem á hrós skilið fyrir góðan leik í dag gegn sterku liði KA.

Austurfrétt tók Andra Þór Magnússon bakvörð Fjarðabyggðar tali eftir leik og sagði hann að lið Fjarðabyggðar hefði átt sennilega að gera betur í fyrri hálfleik og nýta færin sín. Hann fékk sjálfur mjög gott færi og sagði að það færi hefði betur fallið fyrir einhvern annan. Annars er Andri ánægður með liðið. „Við stöndum hérna í “besta” liðinu í 1. deildinni og þeir voru fannst mér heppnir að vinna þennan leik. Þessi leikur hefði sanngjarnt farið 0-0. En bara, vel gert KA-menn, það koma ekki allir austur og ná í þrjú stig. Ég held að þetta verði í síðasta skipti sem það gerist.”

Leiknismenn með stórsigur – Vopnfirðingar fengu á sig sex

Leiknismenn unnu 4-0 stórsigur á Dalvík/Reyni í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag og eru því rétt eins og Huginsmenn búnir að sigra báða leiki sína í 2. deildinni.

Kristófer Páll Viðarsson og Björgvin Stefán Pétursson komu Leiknismönnum tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik og eftirleikurinn varð auðveldur fyrir Fáskrúðsfirðinga. Valdimar Ingi Jónsson bætti við þriðja markinu rétt eftir hlé og Kristófer Páll rak síðasta naglann í kistu Dalvíkinga með sínu öðru marki á 61. mínútu. Leiknir 

Þriðja deild karla fór af stað um helgina og Einherjamenn mættu galvaskir til leiks í Boganum á Akureyri, þar sem þeir mættu Magna frá Grenivík. Óhætt er að segja að tímabilið byrji ekki vel hjá Einherja, þar sem niðurstaðan varð 6-0 tap.

Magnamenn komust yfir á 9. mínútu með marki úr vítaspyrnu og eftir kortersleik misstu Vopnfirðingar Heiðar Aðalbjörnsson af velli með rautt spjald. Norðanmenn nýttu sér liðsmuninn, skoruðu þrjú mörk til viðbótar fyrir hlé og bættu svo tveimur við í seinni hálfleik án þess að Einherji kæmist á blað.

Einherjamenn vilja væntanlega gleyma þessum leik sem fyrst, en um næstu helgi bíður þeirra erfitt verkefni er þeir fara á Akranes og etja kappi við Kára, sem spáð er toppsætinu í 3. deildinni.

Völsungur endaði bikarævintýri beggja austfirsku kvennaliðanna

Lið Hattar og Fjarðabyggðar eru bæði úr leik í Borgunarbikar kvenna og var það Völsungur frá Húsavík sem sló bæði liðin út.

Þarsíðustu helgi töpuðu Fjarðabyggðarkonur 1-6 fyrir Völsungi í Fjarðabyggðarhöllinni, þar sem Freyja Viðarsdóttir skoraði eina mark Fjarðabyggðar. Hattarstúlkur, sem sátu hjá í fyrstu umferðinni, fóru svo í heimsókn á Húsavík á sunnudaginn og máttu þola 7-0 tap gegn Völsungi, sem er greinilega með öflugt lið í ár.

Öll þessi lið leika saman í C-riðli 1. deildar kvenna í sumar og áhugavert verður að sjá hvort austfirsku liðin verða búin að stilla betur saman strengi sína þegar þau hefja leik í Íslandsmótinu. Einnig verður áhugavert að sjá hvað Einherjastúlkur gera í sumar, en Einherji teflir fram kvennaliði í ár, í fyrsta sinn síðan árið 2003.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar