Knattspyrna: Uppgjör helgarinnar – Gott gengi austfirsku liðanna
Helgin var að mestu leyti gæfurík fyrir austfirsk knattspyrnulið. Karlalið Fjarðabyggðar, Hattar, Hugins og Leiknis unnu sterka sigra, Einherji fór í erfiða ferð suður og náði í tvö jafntefli á þremur dögum. Kvennalið Einherja fékk enga óskabyrjun í 1. deild kvenna, en Einherjakonur tefla fram liði í Íslandsmótinu í sumar í fyrsta sinn síðan 2003.Eini leikurinn sem var spilaður á Austurlandi um helgina var leikur Hattar og KV, sem fram fór á Fellavelli á laugardag. Leiknum lauk með 3-0 sigri heimamanna í Hetti. Austurfrétt var að sjálfsögðu á staðnum og umfjöllun um leikinn má finna hér.
Nokkur orð voru lögð í belg á samskiptamiðlinum Twitter um gengi austfirsku liðanna um helgina og voru flestir hressir. Við hvetjum lesendur til að nota kassmerkið #Austurland til að merkja tíst sín um austfirskan fótbolta og önnur austfirsk málefni – við fylgjumst með því!
KFF, Höttur og Huginn með sterka sigra. Einherji nær ágætis stigi og Leiknir leiðir 0-1 í hálfleik. Ekki slæmt! #fotboltinet#Austurland
— Dagur S. Óðinsson (@DagsiOdins) May 23, 2015
Huginn með fullt hús stiga eftir 3 leiki í 2. deild. Spiluðu ekki leik á undirbúningstímabilinu frekar en í fyrra. Magnaður árangur
— Magnús Már Einarsson (@maggimar) May 23, 2015
Ánægður með mína menn í Beverly Hills Austurlands, Huginn með fullt hús stiga! Og ekki má gleyma meistunum í Árborg. #Landsbyggðin
— Andrés Már Jónasson (@AndresMar90) May 23, 2015
3 stig á Laugardalsvelli er faranlega gaman #KFF pic.twitter.com/QKzBaXZkjC
— Bjarni Mark Duffield (@bjarnimark) May 23, 2015
Hér má sjá úrslit og markaskorara liðanna um helgina:
Fram 0-1 Fjarðabyggð
Mark Fjarðabyggðar: Sjálfsmark heimamanna.
Eftir þrjá leiki í 1. deildinni situr Fjarðabyggð í 4. sæti með sex stig. Næsti leikur þeirra er á laugardag, er þeir fara á Akureyri og mæta Þórsurum.
Tindastóll 0-2 Huginn
Mörk Hugins: Marko Nicolic, Fernando Calleja.
Rautt spjald Hugins: Atli Gunnar Guðmundsson (’93)
Afturelding 1-2 Leiknir
Mörk Leiknis: Arek Jan (víti), Ferran Garcia Castellanos.
Rauð spjöld Leiknis: Julio Martinez (’81), Viðar Jónsson (þjálfari, ’81).
Julio Martinez var vikið af velli með sitt annað gula spjald fyrir meintar tafir við framkvæmd aukaspyrnu. Leiknismenn voru ekki sammála þeirri ákvörðun og þá allra síst Viðar Jónsson þjálfari þeirra, eins og kemur fram í leiklýsingu á heimasíðu Leiknis sem við leyfum okkur að grípa niður í: „Við þetta tapaði hinn dagfarsprúði Viðar þjálfari jafnaðargeðinu en reyndi þó að útskýra fyrir dómaranum mistök hans, enda Viðar hvorutveggja þolinmóður kennari og góður dómari. En kennslan féll í grýttan jarðveg og uppskar Viðar rautt spjald fyrir viðleitnina og horfði hann á síðustu 10 mínúturnar úr stúkunni.“
Höttur 3-0 KV
Mörk Hattar: Ísleifur Guðmundsson, Jovan Kujundzic, Jordan Farahani.
Í 2. deild eru Leiknir og Huginn á toppnum ásamt ÍR, með fullt hús stiga eftir þrjá leiki, níu talsins, en bæði lið hafa byrjað mótið af miklum krafti. Hattarmenn eru í neðri hlutanum með þrjú stig.
Kári 2-2 Einherji
Mörk Einherja: Sigurður Donys, Todor Hristov
Víðir 1-1 Einherji
Mark Einherja: Gunnlaugur Bjarnar Baldursson
Einherjamenn gerðu fína ferð suður og náðu í jafntefli á Akranesi og í Garði. Þeir voru mjög nálægt því að hirða öll stigin í Garði en heimamenn jöfnuðu metin úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Því eru Einherjamenn með tvö stig eftir þrjá leiki.
Völsungur 11-0 Einherji
Einherjakonur hófu leik á Húsavík síðastliðinn fimmtudag og hlutu stóran skell, gegn sterku liði Völsungs sem einnig hefur farið illa með lið Fjarðabyggðar og Hattar í bikarnum.
Höttur og Fjarðabyggð hefja leik í 1. deild kvenna í vikunni.