Knattspyrna: Huginsmenn létu eitt mark duga til sigurs - Myndir

QM1T5581Austfirsku liðin voru á ferð og flugi um helgina og voru fáir leikir spilaðir í fjórðungnum. Karlalið Fjarðabyggðar, Leiknis og Einherja áttu útileiki fyrir sunnan, en Huginsmenn léku á heimavelli. Þá fóru Hattarstúlkur á Akureyri og gerðu atlögu að því að ná í sín fyrstu stig í sumar.

Fjarðabyggð mætti Þrótti R. í toppslag í 1. deildinni á gervigrasvellinum í Laugardal. Fjarðabyggðarliðið átti afleitan fyrri hálfleik og voru 2-0 undir í hálfleik. Seinna mark Þróttar var eitt skrautlegasta sjálfsmark síðari ára í íslenska boltanum, en þá átti Bjarni Mark Antonsson sendingu til baka á Kile Kennedy í markinu, sem Kile missti á einhvern ótrúlegan hátt undir sig og inn í markið. Þetta ótrúlega atvik og hin mörkin úr leiknum má sjá á vefsíðu SportTV sem sýndi leikinn í beinni útsendingu.

Lið Fjarðabyggðar spýtti aðeins í lófana í síðari hálfleik og stjórnaði gangi leiksins. Brynjar Jónasson minnkaði muninn á 88. mínútu en það var of seint í rassinn gripið fyrir Fjarðabyggðarliðið, sem er enn í 3. sæti deildarinnar eftir þessi úrslit.

Fyrsta tap Leiknis staðreynd – Löng helgi hjá Einherjamönnum
Leiknismenn töpuðu sínum fyrsta leik í 2. deildinni í sumar á laugardag er þeir fóru í heimsókn til toppliðs ÍR í Breiðholti. ÍR-ingar komust yfir snemma leiks en Julio Martinez jafnaði metin fyrir Leikni undir lok fyrri hálfleiks. Jafnt var allt fram á 83. mínútu, en þá bættu heimamenn við öðru marki og hirtu öll stigin.

Einherjamenn fóru suður um helgina og léku tvo leiki í 3. deildinni. Á föstudag unnu þeir góðan 0-3 sigur gegn Berserkjum. Bjartur Aðalbjörnsson skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og Todor Hristov bætti við þriðja markinu undir lok leiks.

Á sunnudag fóru Vopnfirðingar svo í Sandgerði og mætti liði Reynis. Þar reyndust heimamenn sterkari og unnu 3-2 sigur. Todor Hristov skoraði bæði mörk Einherja, sem sitja í 5. sæti deildarinnar eftir úrslit helgarinnar.

Hattarstúlkur eru enn án stiga í C-riðli 1. deildar kvenna. Þær fóru í heimsókn til Hamranna á Akureyri síðasta föstudag og töpuðu 1-0, en mark heimaliðsins kom á 59. mínútu. Næsti leikur þeirra er gegn Einherja á heimavelli næstkomandi fimmtudag, en þar mætast tvö neðstu lið riðilsins.

Fátt um fína drætti á Seyðisfirði
Á laugardag mættust Huginn og Knattpyrnufélag Fjallabyggðar á Seyðisfjarðarvelli. Lið KF hefur verið að sækja í sig veðrið eftir brösuga byrjun og skelltu meðal annars Hetti á Fellavelli fyrir rúmri viku síðan. Huginsmenn hafa hinsvegar verið á góðu róli og héldu uppteknum hætti á laugardaginn.

Fyrsta og eina mark leiksins kom eftir fimm mínútna leik, en þá skoraði Fernando Calleja með góðu skoti undir markmann gestanna eftir að hafa sloppið í gegn um vörnina. Þetta eina mark létu Huginsmenn duga til sigurs.

Fátt var um fína drætti í leiknum og Huginsliðið var ekki að spila sinn besta leik. Áhorfendur sem voru að gera sér vonir um markaveislu eftir að Huginsmenn komust yfir í upphafi leiks fengu þær óskir ekki uppfylltar og lítið var um marktækifæri yfir höfuð.

Mögulega mun taka einhvern tíma fyrir liðið að venjast því að leika á Seyðisfjarðarvelli, sem er ekki alveg jafn sléttur og gervigrasið á Fellavelli. Leikmenn beggja liða áttu raunar í töluverðum erfiðleikum með að hemja boltann á vellinum og ná upp góðu spili og það setti mark sitt á leikinn. Mikið var um háar sendingar fram á við hjá báðum liðum og leikurinn var hvorki fallegur né sérlega skemmtilegur.

Sigur Hugins var þó ekki í neinni hættu, þeir sóttu meira og í þau fáu skipti sem KF náði að ógna marki Hugins var Atli Gunnar Guðmundsson vandanum vaxinn í markinu.

Blazo Lalevic átti góðan dag á miðri miðjunni hjá heimamönnum og Fernando Calleja var einnig afar sprækur.

Þessi sigur þýðir það að Huginsmenn skjótast uppfyrir nágranna sína í Leikni og eru nú í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum frá toppliði ÍR.
QM1T5564QM1T5570QM1T5577QM1T5583QM1T5590QM1T5633QM1T5646QM1T5654QM1T5685QM1T5712QM1T5732QM1T5737QM1T5761QM1T5774QM1T5788QM1T5802QM1T5803QM1T5810QM1T5835QM1T5844QM1T5900QM1T5903QM1T5919QM1T5980
QM1T5556

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.