Matthías Haralds: Þjálfarinn finnur alltaf fyrir vissum vanmætti
Matthíasi Haraldssyni, þjálfara Þróttar, fannst erfitt að horfa upp á liðið missa niður tveggja hrinu forskot gegn HK á heimavelli í gær. Liðið kom til baka og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í oddahrinunni.„Maður finnur fyrir vissum vanmætti. Maður vill geta gert meira. Eins og ég sagði við þær þá get ég ekki tekið á móti fyrir þær eða lamið boltann í gólfið. Þær verða að gera það,“ sagði Matthías í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
Þróttur spilaði vel fyrstu tvær hrinurnar og vann þær. Næstu tvær voru hins vegar skelfilegar þar sem HK slátraði heimaliðinu.
„Leikáætlun okkar gekk upp í byrjun. Við gerðum fá mistök og vorum með góðar uppgjafir og móttökur. Við vitum að HK getur spilað vel og þær hrukku í gírinn en móttakan var afleit í þriðju og fjórðu hrinu.
Við komum reyndar til baka í þriðju hrinunni og ég var sæmilega bjartsýnn. En svo kom sú fjórða og ég held að ég hafi ekki séð liðið spila svona illa í vetur.“
Svíður undan eina tapinu
Óhjákvæmilega komu upp minningar úr bikarúrslitaleiknum frá því fyrir tveimur vikum, eina tapleik Þróttar í vetur. Liðið var þá með 2-0 forustu gegn HK og virtist í góðum málum en Kópavogsliðinu tókst samt að vinna leikinn.
„Það sveið undan því tapi, sérstaklega því við vorum 2-0 yfir. Það er samt sagt að maður læri meira af einum tapleik en tíu sigurleikjum og sá leikur hjálpaði okkur í þessari rimmu.“
Ýttu rækilega á reset-takkann
Matthías segist hafa verið ánægður með sem Þróttarliðið sýndi. Bæði með að rífa sig strax upp eftir bikarleikinn og vinna Íslandsmeistaratitilinn með að leggja HK í þremur leikjum og með því að klára leikinn á heimavelli í gær.
„Það var svakalega gott að klára þetta hér í dag fyrir framan okkar fólk. Það er ekkert sjálfgefið að klára HK í þremur leikjum í röð. Mér finnst við hafa sýnt það í þessari seríu að við erum besta liðið í vetur.
Við ýttum rækilega á „reset“ takkann eftir fjórðu hrinu. Við fórum í leik sem við köllum kjúklinginn og tókst að laða fram bros. Markmiðið var að fá stelpurnar til að hugsa um eitthvað annað en að þær væru að fara í fimmtu hrinuna eftir að hafa skíttapað þeirri fjórðu.
Í kjölfarið fylgdu uppgjafirnar, við skoruðum beint úr þeim sem voru mikilvæg stig í lokin. Það var gott að vera alltaf skrefinu á undan í síðustu hrinunni.“
Strax byrjað að byggja upp lið næsta vetrar
Árangur Þróttar er ekki síst merkilegur í ljósi þess að síðustu tvö ár hefur liðið misst lykilmenn í byrjun hvers tímabils en samt verið samkeppnishæft í öllum keppnum.
„Undirbúningurinn við að púsla saman liðinu fyrir næsta tímabil er þegar hafinn. Það eru alltaf einhverjar breytingar,“ segir Matthías en vill ekki gefa upp hvaða breytingar séu fyrirsjáanlegar í dag.
„Við byggjum liðið upp í sumar. Fyrir tveimur árum misstum við fimm eða sex menn og þrjá fyrir þetta en náðum að koma með sterka leikmenn inn í staðinn.“