Fjarðabyggð meistari í þriðju deild eftir sigur á Leikni: MYNDIR
Fjarðabyggð fagnaði í dag meistaratitli í þriðju deild karla í knattspyrnu eftir 1-5 sigur á Leikni á Fáskrúðsfirði í lokaumferðinni. Huginn frá Seyðisfirði fékk 45 stig líkt og Fjarðabyggð en var með lakara markahlutfall.Fyrsta mark leiksins kom strax á annarri mínútu þegar Fannar Árnason skallaði inn hornspyrnu. Víkingur Pálmason kom síðan Fjarðabyggð í 0-2 með hörkuskoti utan teigs í stöngina eftir korters leik.
Fjarðabyggð hafði undirtökin í fyrri hálfleik en slakaði verulega á eftir annað markið. Leiknismenn beittu skyndisóknum og eftir eina slíka og mistök í vörn Fjarðabyggðar, slapp Almar Daði Jónsson í gegn og minnkaði muninn í 1-2 á 32. mínútu.
Seinni hálfleikurinn var hins vegar einstefna. Fjarðabyggð pressaði ofarlega á vellinum og leikmenn Leiknis náðu aldrei nema 1-2 sendingum sín á milli og komust því ekki út af eigin vallarhelmingi. Þá var vörnin gloppótt en í liðið í dag vantaði bæði fyrirliðann Svan Frey Árnason og hinn miðvörðinn Fannar Pétursson.
Leiknismenn virtust hreinlega sofandi í föstum leikatriðum en öll mörk Fjarðabyggðar í seinni hálfleik voru skallamörk eftir horn- eða aukaspyrnur.
Það fyrsta skoraði Hákon Þór Sófusson á 48. mínútu, þremur mínútum síðar kom Esben Lauridsen Fjarðabyggð í 1-4 og Hákon Þór bætti síðan við sínu öðru marki á 61. mínútu.
Fjarðabyggð hefði getað bætt við enn fleiri mörkum. Sigurjón Egilsson, sem kom inn á sem varamaður í sínum síðasta leik fyrir Fjarðabyggð, brenndi af tveimur upplögðum tækifærum undir lokin. Í uppbótartíma var Kristófer Pál Viðarssyni, leikmanni Leiknis, vikið af leikvelli þegar hann fékk sitt annað gula spjald.
Fjarðabyggð endaði með 45 stig, líkt og Huginn. Fjarðabyggð var hins vegar með 53 mörk í plús en Huginn 28, sem telst þó nokkuð gott eftir sumarið. Bæði liðin spila í annarri deild að ári.
Huginn vann í dag Magna 3-2 á Seyðisfjarðarvelli. Marko Nikolic og Birgir Hákon Jóhannsson tryggðu Huginn 2-0 forskot í hálfleik og Einar Óli Þorvarðarson bætti við því þriðja áður en gestirnir minnkuðu muninn.