Blak: Norðfirðingar settu gestrisnina á ís á laugardag - Myndir
Blaklið Þróttar byrja veturinn vel. Kvennaliðið vann Stjörnuna í Neskaupstað og karlaliðið lagði Íslandsmeistara HK á laugardaginn en Kópavogsliðið vann fyrri leikinn á föstudag.Þróttur og HK hófu leik í fyrstu deild karla á föstudag í leik sem HK vann 0-3. Jafnt var framan af fyrstu hrinu en um hana miðja náði HK góðu forskoti sem Þrótturum tókst ekki að vinna upp og endaði hún 17-25.
Önnur hrinan var með þeim æsilegri sem hafa sést lengi. Þróttur var yfir 24-22 en HK-ingar gáfust ekki upp og unnu 32-34. Þriðja hrinan var einnig mjög jöfn en hana vann HK 23-25. Valgeir Valgeirsson var stigahæstur Þróttar í leiknum með 15 stig en Matthías Haraldsson skoraði tólf.
Liðin mættust aftur í hádeginu á laugardegi og á meðan leiknum stóð settu heimamenn „gestrisnina á ís,“ eins og Hlöðver Hlöðversson, þjálfari liðsins, sagði í samtali við Austurfrétt.
Þróttur vann fyrstu hrinuna 27-25 en HK þá seinni 14-25 og þá þriðju 20-25 eftir að Þróttur hafði verið með yfirhöndina. Ákaft studdir af áhorfendum á Norðfirði héldu Þróttarar áfram, unnu fjórðu hrinuna 25-16, oddahrinuna 15-12 og leikinn þar með 15-12. Valgeir og Matthías voru aftur stigahæstir með 17 og 14 stig.
„Að hafa áhorfendurna var eins og að hafa auka liðsmann á vellinum,“ segir Hlöðver. „Leikurinn á laugardag var æsispennandi og mikil barátta í báðum liðum. Þau sýndu oft á tíðum frábæran varnarleik sem skilaði sér í löngum skorpum.“
Kvennaliðið sigraði Stjörnuna 3-0 eða 25-14, 25-16 og 25-20 í hrinum. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir var langstigahæst með 21 stig.
„Fyrst og fremst var gott að byrja tímabilið með því að fá þrjú stig,“ sagði Matthías Haraldsson, þjálfari, í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
„Uppgjafirnar hjá okkur voru góðar og Stjarnan í miklum vandræðum með að taka á móti þeim sem gerði okkur auðveldara fyrir í vörn. Ungu leikmennirnir stóðu sig frábærlega og allir 12 leikmenn sem voru á skýrslu komu við sögu í leiknum sem er frábært.
Jóna Guðlaug vinnur marga bolta í sókninni en fleiri leikmenn þurfa að skila stigum. Einn leikmann vantaði í hópinn í leiknum en það er Erla Rán Eiríksdóttir sem styrkir liðið mikið sóknarlega.“