Aftur háspenna: Þróttur tryggði sér deildarmeistaratitilinn

blak_hk_throtturn_ymir_throtturr_0165_web.jpgÞróttur Neskaupstað tryggði sér í dag deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna í blaki þegar liðið vann HK 2-3 í Digranesi í dag. Í oddahrinunni vann Þróttur upp fimm stiga forskot þegar liðið snéri leiknum sér í hag.

 

Leikurinn í dag var hreinn úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn en liðin hafa fylgst að í allan vetur. Aðeins vika er síðan liðin mættust í úrslitaleik bikarkeppninnar þar sem úrslitin réðust í oddahrinu. Slík var reyndin í dag þótt brjálæðið væri heldur minna.

HK vann fyrstu hrinuna 25-19. Heimaliðið var alltaf 1-2 stigum á undan en jók ekki forskotið að ráði fyrr en í lokin.

Þróttur svaraði með að vinna aðra hrinu 18-25. Jafnt var í fyrstu 6-6 en þá skoraði Norðfjarðarliðið fjögur stig í röð. Sú forusta hélst út hrinuna. Miklu munaði um bætta vörn Þróttar.

Mestar sveiflur voru í þriðju hrinu. Þróttur komst í 1-6 en HK minnkaði muninn í 5-6. Þróttur var yfir 6-8 en HK skoraði sex næstu stig og komst í 12-8. Móttökurnar í vörn Þróttar voru lélegar á þessum kafla og það leiddi til frekari vandamála. Þær löguðust og Þróttur komst yfir 13-14 og síðan 17-16.

Aftur svaraði HK með þremur stigum en þá var komið nóg. Þróttur skoraði fjögur stig í röð og breytti stöðunni í 17-20. HK minnkaði muninn í 18-20 en seinustu fimm stigin í hrinunni voru Þróttar.

HK byrjaði betur og komst í 10-6 í fjórðu hrinu. Þróttur spilaði ágæta hávörn en mikið var af mistökum í sókninni. HK var enn yfir 15-10 en Þróttur minnkaði muninn í 15-13 og 16-15. Fleiri urðu stigin ekki, HK skoraði níu stig í röð og vann hrinuna 25-16.

Þróttur virtist enn fastur í fjórðu hrinu þegar sú fimmta byrjaði því HK komst í 8-3. Liðið spilaði mjög góða vörn í fjórðu hrinu og framan af þeirri fimmtu. Í bikarúrslitaleiknum fyrir viku leitaði Þróttur alltaf til Miglenu Apostolovou á ögurstundum og hún skoraði stigin. Í dag gekk HK betur að eiga við hana. Á móti opnuðust færi fyrir Helenu Kristínu Gunnarsdóttur á hinum vængnum sem spilaði virkilega vel.

Þróttur jafnaði í 9-9 og kost yfir 9-11. HK minnkaði muninn í 13-14 og áhorfendur áttu von á að í hönd færi saman brjálæðið og fyrir viku. Svo var ekki. HK hafði gert sig sekt um nokkur tæknimistök á lokakaflanum og slík var reyndin þegar Þróttur fékk sigurstigið úr leikbroti HK og leikmennirnir fögnuðu öðrum titlinum á innan við viku.

Sigurinn í deildinni tryggir Þrótti einnig heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Í undanúrslitum mætir Þróttur KA. Leikið verður 5. og 7. apríl og oddaleikur laugardaginn 9. apríl, ef þarf. HK mætir Ými í hinni undanúrslitaviðureigninni.

Þrír leikir voru í Digranesi í dag. Dagurinn byrjaði á leik Þróttar R. og Ýmis klukkan hálf eitt og átti leikur Þróttar N. og HK að byrja 14:15. Fyrri leikurinn fór í oddahrinu og hófst seinni leikurinn því ekki fyrr en um klukkan þrjú. Það leiddi til þess að margir stuðningsmenn Norðfjarðarliðsins þurftu að fara í fjórðu hrinu til að ná flugi heim. Að auki misstu einhverjir leikmanna af fluginu.

Blaksambandið virðist í tímaáætlunum sínum ekki gera ráð fyrir löngum leikjum því dagskráin fór úr skorðum þegar bikarúrslitaleikirnir voru leiknir um seinustu helgi þegar úrslitaleikur kvenna fór í oddahrinu.

Leikmenn karlaliða KA og HK voru því orðnir óþreyjufullir þegar leik Þróttar N. og HK lauk í dag en þeir áttu að spila þriðja leikinn í Digranesi. Þeir fóru strax út á völlinn til að hita upp og héldu áfram að hita upp á meðan verðlaunin og deildarmeistaratitilinn voru afhent. Þeir hefðu gjarnan mátt taka sér hvíld rétt á meðan því stund sigurvegaranna drukknaði í boltaskellum.

Lokastaðan

Lið              Leikir    Stig    Hrinur    Stigaskor    
1. Þróttur N. 10       20      30-6       847-616
2. HK           10       18      28-8       846-655
3. Ýmir         10       15     18-18      773-786
4. KA           10        15     15-19      716-774
------
5. Þróttur R. 10       12      13-25      764-876
6. Stjarnan   10       10      2-30       564-803

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar