Birna Jóna heldur áfram að bæta Íslandsmet

Birna Jóna Sverrisdóttir, sleggjukastari úr Hetti, tvíbætti nýverið Íslandsmet sitt með 4 kg sleggju í flokki 15 ára stúlkna.

Birna Jóna, sem æfir undir handleiðslu Bergs Inga Péturssonar kastþjálfara á höfuðborgarsvæðinu, bætti metin á móti sem sett voru upp fyrir hana í tilefni þess að hún fór suður til að æfa.

Á fyrra mótinu kastaði hún 42,44 metra en því seinna 42,66 metra. Þá átti hún einnig kast upp á 44,65 metra. Meðal þeirra sem kepptu á móti henni voru bræður hennar, Atli Geir og Daði Fannar, en þeir eiga báðir afreksferil í kastgreinum.

Birna eignaði sér aldursflokkametið með 4 kg sleggjunni um miðjan ágúst þegar hún kastaði 42,07 metra á seinni hluta frjálsíþróttamóts Sumarhátíðar UÍA. Hennar besti árangur áður var 41,06 á Meistarmóti Íslands í lok júní. Sá árangur varð meðal annars til þess að hún fór á Ólympíuleika æskunnar í lok júlí.

Birna Jóna byrjaði að kasta 4 kg sleggjunni í lok október í fyrra. Þá tók hún þátt í þriggja móta röð sem haldið var innan einnar viku undir merkjum ÍR. Þar byrjaði hún á að kasta 34,11 metra en endaði á 36,10. Framfarir hennar síðastliðið ár hafa því verið miklar.

Mynd: FRÍ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.