Björgvin Karl: Þetta var geggjað!
Björgin Karl Gunnarsson, þjálfari liðs FHL í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu, var í geðshræringu eftir 5-1 sigur á ÍBV í dag sem tryggði liðinu keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Hann vonast eftir öflugum stuðningi samfélagsins til að halda úti samkeppnishæfu liði í efstu deild.„Þetta var geggjað. Ég er með gæsahúð um allt. Þetta er ótrúlegt afrek. Ég er hrikalega stoltur af liðinu og öllum í kringum það, bæði í sumar og undanfarin ár. Þetta hefur verið magnað ferðalag,“ sagði Björgvin Karl eftir sigurinn á ÍBV í dag.
Eftir úrslit annarra leikja í 14. umferð deildarinnar í gærkvöldi var ljóst að sigur myndi gulltryggja úrvalsdeildarsætið þótt fjórar umferðir séu enn eftir. FHL komst í 1-0 strax eftir tíu mínútna leik en meira var ekki skoraði í fyrri hálfleik. Tvö mörk snemma í seinni hálfleik gerðu stöðuna vænlega. ÍBV minnkaði muninn en FHL kláraði síðan leikinn.
„Þetta var erfiður leikur og fyrri hálfleikur alls ekki opinn. Annað markið tryggði okkur yfirhöndina. ÍBV náði smá áhlaupi eftir að hafa skorað en síðan tókum við aftur til og kláruðum leikinn með stæl, eins og við höfum gert í sumar.“
Fann strax í æfingaferðinni að sumarið yrði sérstakt
FHL kom upp úr annarri deildinni eftir sumarið 2021, gerði atlögu að toppbaráttunni fyrsta sumarið en dróst niður í fallbaráttuna í fyrra. Fyrir þetta sumar var liðinu spáð um miðja deild og út á við kvaðst Björgin Karl vera sáttur við að sú spá gengi upp.
„Við fórum í æfingaferð til Spánar í mars og ég sagði þar strax við leikmennina að það væri eitthvað sérstakt að fara að gerast. Ég fann strax góðan anda í leikmannahópnum og í kringum liðið og við værum með góða leikmenn.
Sumarið í fyrra var erfitt en lærdómsríkt þar sem við þurftum að fara út úr þeim bolta sem við viljum spila til að halda okkur í deildinni.“
Gengið vel að finna framherjana
Mikið hefur munað um bandarísku sóknarmennina Emmu Hawkins og Samönthu Smith sem komu til félagsins fyrir leiktíðina. Emma er langmarkahæst í deildinni með 24 mörk og Samantha næst með 15. Saman hafa þær því skorað 39 af 55 mörkum FHL.
„Þær hafa verið öflugar fremst en þurfa líka öflugt bakland. Miðja og vörn hafa staðið sig vel. Einhver þarf að senda boltann á þær, við höfum æft hvernig það sé gert og gert það vel. Það er hægt að skoða söguna og sjá að liðin sem ég þjálfa eru nær undantekningarlaust með markahæstu leikmennina sem endurspeglar þann fótbolta sem ég vil spila.“
Vill búa til samkeppnishæft úrvalsdeildarlið
Eftir því sem leið á júlí mánuð kom betur í ljós að fátt kæmi í veg fyrir að FHL færi upp. Björgvin Karl segir þó að enn sé lítið byrjað að hugsa samningum við leikmenn eða þjálfara fyrir næstu leiktíð.
„Auðvitað erum við farin að hugsa ýmislegt en við klárum tímabilið og síðan hefst þessi vinna. Þá sjáum við hvað hægt er að gera. Ég vona að samfélagið og þessi stóru fyrirtæki sem hér eru hjálpi okkur til að gefa enn frekar í og búa til lið sem mætir ekki bara til að vera með heldur er samkeppnishæft og getur haldið sér í deildinni. Við getum það því við erum með frábæra unga leikmenn að koma upp.“
Skrefið upp í úrvalsdeildina reynist mörgum liðum erfitt. Á móti sýna dæmin að fyrsta deildin er orðin öflugri eins og sú staðreynd að lið eins og Selfoss, sem undanfarin ár hefur átt öflugt úrvalsdeildarlið, er við það að falla strax aftur niður úr annarri deildinni.
„Það tekur mörg ár að byggja upp lið eins og Val og Breiðablik, en með heimastelpum og góðum erlendum leikmönnum er hægt að búa til lið á pari við önnur. Bilið milli deildanna hefur minnkað en gæðin eru þó meiri í úrvalsdeildinni. Það getur verið einfaldara fyrir lið úr neðri deild að gíra sig upp fyrir einn bikarleik úr liði úr efri deild, heldur en að halda sjálfstraustinu eftir vont tap eða erfiða leiki í efstu deild og geta síðan stigið upp í þeim leikjum sem skipta máli. Galdurinn fyrir næsta ár verður að búa til þá samheldni til að tryggja að ekkert lið komi hingað austur án þess að fara sært heim.“
Lyftir FHL til framtíðar
Björgvin Karl segir að úrvalsdeildarsætið skipti ekki bara FHL máli heldur Austurland allt. „Ég horfi til körfuknattleiksliðs Hattar þegar ég segi það. Efstu deild fylgir meiri umfjöllun, liðið verður til dæmis vikulega í sjónvarpi. Við verðum að vera tilbúin í það. Þetta mun líka lyfta yngri flokka starfinu. Við erum með flottar fyrirmyndir og þeim mun fjölga. Það eykur áhugann og ég hlakka til að sjá ávöxtunina af því.“
Aðspurður um hvort áfanganum verði fagnað í kvöld segir Björgvin að það verði af hófsemd. „Við verðum með smá matarboð í kvöld og fögnum smá. Síðan ætlum við okkur að klára mótið með stæl.“
Mynd: Unnar Erlingsson