Blak: Kvennaliðið tapaði fyrsta leiknum gegn HK

Þróttur tapaði í gærkvöldi fyrsta leik sínum við HK í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki en leikið var í Kópavogi.

HK var alltaf á undan í fyrstu hrinu en þó aldrei með mikla forustu. Þróttur gat hins vegar vel unnið hrinuna á æsilegum lokakafla.

Þróttur átti góðan sprett þegar liðið breytti stöðunni úr 20-17 í 21-22. HK náði aftur frumkvæðinu um sinn, komst í 24-23 en Þróttur jafnaði og átti síðan þrisvar möguleika á að klára hrinuna. Það gekk ekki eftir og HK vann hana loks 29-27.

HK vann aðra hrinuna örugglega, 25-17. Liðið var alltaf með tök á henni en um miðbik hennar kom vondur kafli Þróttar þegar HK skoraði sjö stig gegn einu og breytti stöðunni úr 11-7 í 18-10.

Þróttur fór mun betur af stað í þriðju hrinu, komst í 1-7 en HK jafnaði í 13-13 með að skora fimm stig í röð. HK komst síðan yfir en Þróttur jafnaði í 19-19 með að skora fjögur stig í röð. Þar með var allur vindur úr Norðfjarðarliðinu, HK skoraði síðustu sex stigin og vann 25-19 og leikinn 3-0.

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst í undanúrslitin. Ekkert er leikið í úrslitakeppninni í kvöld en karlalið Þróttar spilar á Akureyri annað kvöld en það tapaði fyrir KA í gærkvöldi. Kvennaliðið tekur á móti HK á laugardag.

Í kvöld fer hins vegar farm lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik. Höttur heimsækir Álftanes í leik sem ræður endanlegri röð liðanna í deildinni. Bæði lið hafa hins vegar tryggt sig í úrslitakeppnina í fyrsta sinn.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.