Blak: Lið Þróttar kræktu í tvö stig í útileikjum

Lið Þróttar sóttu tvö stig úr fjórum útileikjum um helgina í úrvalsdeildum karla og kvenna.

Karlaliðið byrjaði vestur á Ísafirði gegn Vestra í hörkuleik sem heimamenn unnu eftir oddahrinu. Þróttur vann þó fyrstu tvær hrinurnar, þá fyrstu nokkuð örugglega 20-25 og þeirri annarri snéri liðið sér í vil í lokin og vann 23-25.

Vestri tók síðan næstu tvær, 25-22 og 25-18. Þróttur var á undan í oddahrinunni þar til staðan var 10-11, Vestri skoraði þá tvö stig í röð, tók frumkvæðið og vann eftir upphækkun 17-15.

Karlaliðið spilaði einnig við Þrótt Reykjavík um helgina og tapaði 3-1 eða 25-18, 25-27, 25-20 og 25-17 í hrinum. Liðið er með fjögur stig úr sex leikjum og var þarna að spila við lið sem eru í efri helmingi deildarinnar.

Kvennaliðið spilaði fyrst við Álftanes og tapaði þeim leik í oddahrinu. Úrslit í hrinunum voru 19-25, 25-22, 19-25, 25-16 og 15-9. Litlar sveiflur voru innan hrinanna.

Seinni leikurinn var, líkt og hjá körlunum, gegn Þrótti Reykjavík og tapaðist 3-0 eða í hrinum 25-22, 25-20 og 25-18. Kvennaliðið er með þrjú stig úr fimm leikjum.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.